Umhverfisráðherra kynnir nýja loftslagsskrifstofu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra flutti erindi á ársþingi Veðurstofnunar Íslands …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra flutti erindi á ársþingi Veðurstofnunar Íslands þar sem hann greindi frá stofnun skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stofnuð hefur verið skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands. Þetta tilkynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands sem haldinn var í dag.

„Í dag stígum við mikilvægt skref fram á við og þar er mér mikil ánægja að tilkynna um aukið framlag [umhverfis]ráðuneytisins til Veðurstofu Íslands svo koma megi á sérstakri skrifstofu hjá stofnunni, skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar,“ sagði ráðherrann í erindi sínu á ársfundinum. 

Skrifstofan á að vera, samkvæmt tilkynningu Veðurstofunnar sem fylgdi ávarpi ráðherrans, vettvangur fagstofnanna og hagaðila. Mun skrifstofan styðja samfélagið í ákvörðunum og aðgerðum vegna aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga. Auk þess mun skrifstofan sinna samstarfi á þessu sviði við alþjóðastofnanir og sinna miðlun um áhrif loftslagsbreytinga til hagsmunaaðila og almennings.

Veðurstofa Íslands mun veita skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar forystu, en skrifstofan verður sameiginlegur vettvangur háskólasamfélagsins, Rannís, fagstofnana og hagaðila. Þorsteinn Sigðursson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar sagði á ársfundinum að hann vonaðist til þess að skrifstofan valdi því að stjórnvöld og vísindasamfélagið verði meira samstíga í viðbrögðum þeirra við loftslagsbreytingar.

Brú milli vísinda og samfélags

„Á sama hátt og við bregðumst við þegar náttúruvá á borð við eldgos á Reykjanesskaga dynur yfir eða ofanflóð á Seyðisfirði, þarf samfélagið að beita réttum aðgerðum við að vakta og takast á við loftslagsbreytingar. Þær aðgerðir þurfa að byggja á vísindalegum grunni og þá tölum við gjarnan um að mynda „brú milli vísinda og samfélags,“ sagði Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, í tilkynningunni.

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á íslensku samfélagi voru miðpunktur ársfundar Veðurstofu Íslands og snertu allir mælendur á því umræðuefni, þar á meðal Halldór Björnsson hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands og Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.

Veðurstofa Íslands er tengiliður Íslands við milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC)  í umboði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þær niðurstöður sem birtar hafa verið í skýrslum IPCC eru vísindalegar forsendur fyrir þeim alþjóðlegu aðgerðum sem farið hefur verið í til að uppfylla loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og bókanir hans, þar á meðal Kyoto- og Parísarsamninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert