Bólusetning í Grímsey snúin en í skoðun

Grímsey.
Grímsey. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Til greina kemur að læknir eða hjúkrunarfræðingur fari til Grímseyjar og bólusetji íbúana þar við kórónuveirunni. Málið er snúið en er í skoðun, segir Inga Berglind Birgisdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Íbúar í Grímsey eru óánægðir með framkvæmd bólusetninga við kórónuveirunni og kvarta yfir háum kostnaði við að fara í bólusetningu til Akureyrar. Einnig þarf fólk að taka sér tveggja daga frí vegna sprautunnar.

„Þetta er allt í skoðun. Við höfum verið að vinna samkvæmt forgangslistum og þetta fólk hefur fengið boð eins og aðrir,“ segir Inga Berglind. „Við höfum boðið þeim að koma ef þau eiga ferð á Akureyri. Þá er þeim velkomið að hafa samband ef það er komið að þeim í röðinni og við erum með bóluefni,“ bætir hún við.

Frá bólusetningu í slökkvistöðinni á Akureyri í mars.
Frá bólusetningu í slökkvistöðinni á Akureyri í mars. mbl.is/Margrét Þóra

Þarf mismunandi tegundir af bóluefni 

Inga segir að taka þurfi með í reikninginn að fólk tilheyri mismunandi hópum varðandi bólusetningu og bóluefni. „Þetta er snúið en kemur vel til greina. Við gerum okkar allra besta,“ segir hún.

Aðspurð segir hún það ekki sitt að ákveða hvort íbúar Grímseyjar verði styrktir fjárhagslega til að komast til Akureyrar í bólusetningu.

Fólk orðið óþolinmótt

Á síðustu tveimur vikum hafa um 4.000 manns verið bólusettir í slökkvistöðinni á Akureyri.  „Þetta gengur vel og við höldum áfram eins og bóluefni mun berast til okkar. Það munu allir fá bólusetningu. Ég veit að fólk er orðið mjög óþolinmótt og finnst biðin of löng. Ég skil það alveg en það verður enginn skammtur sem fer til spillis og við förum eftir því sem sóttvarnalæknir ákveður hverju sinni,“ segir hún.

Eins og staðan er núna er komið að árgangi 1966 að fá bólusetningu. Enginn verður bólusettur í dag en bólusetningardagarnir eru á þriðjudögum og fimmtudögum. Spurð út í fólk með undirliggjandi sjúkdóma vonast hún til að lokið verið við að bólusetja það í næstu og þarnæstu viku.

mbl.is