„Af hverju kæra þessar konur ekki?“

Olga Margrét Cilia.
Olga Margrét Cilia. Ljósmynd/Aðsend

„Enn og aftur er spurt: Af hverju kæra þessar konur ekki? Spurningin ætti hins vegar að vera: Af hverju treystum við okkur ekki til að kæra?,“ sagði Olga Margrét Cilia, varaþingmaður Pírata sem nú situr á þingi, í ræðu undir liðnum störf þingsins í dag.

Olga fjallaði um afleiðingar og umhverfi kvenna og kynsegin sem verða fyrir kynbundnu ofbeldi í kjölfar annarrar bylgju #metoo umræðunnar, sem nú er í fullum gangi á samfélagsmiðlum. 

Hér eru nokkrar ástæður sem er gott að hafa í huga: Endalausar sögur af lögreglufólki sem hlær þolendur kynferðisofbeldis út af lögreglustöðinni.

Dómarar sem gefa beint og óbeint í skyn að þetta hafi verið okkur að kenna því að við drukkum of mikið.

Kærum er vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum þó að við hefðum gert allt rétt, þ.e. það sem réttarkerfinu finnst að við eigum að gera eftir að okkur er nauðgað; fara á neyðarmóttökuna, tala við lögreglu og lækna og fá svo ávítur fyrir að hafa ekki verið nógu skýrar.

Olga fjallaði um brotaþola, konur og kynsegin fólk í fyrstu persónu, fleirtölu og sagði: 

Við kærum ekki því að ef við dirfumst að gera það er okkur úthúðað í samfélaginu. Ef við segjum frá erum við útskúfaðar frá fjölskyldum og vinum.

Olga sagði spurninguna, sem fólk ætti heldur að velta fyrir sér í kjölfar nýrrar bylgju #metoo vera; Af hverju hætta þessir góðu gerendur ekki bara að áreita, nauðga, lítillækka og valda óafturkallanlegum skaða á lífi kvenna og kynsegin?

mbl.is