Konur deila á ný sögum af kynferðisofbeldi

Fjöldi kvenna hefur stigið fram á Twitter í dag og …
Fjöldi kvenna hefur stigið fram á Twitter í dag og sagt frá ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. mbl.is

Fjöldi fólks hefur í dag stigið fram á samfélagsmiðlinum Twitter og sagt frá kynferðislegu ofbeldi sem það hefur orðið fyrir undir myllumerkinu #metoo. Segja má að þannig sé önnur #metoo-bylgja farin af stað.

Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem deilt hafa sögum sínum og margar þeirra segjast ekki hafa þorað að kæra af ótta við að þeim yrði ekki trúað, gerendur þeirra yrðu ekki sakfelldir og/ eða að þær hafi ekki viljað lýsa ásökunum á hendur t.a.m. þjóðþekktum karlmönnum. 

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steinunn Gyðu- Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, segir enda að margar konur veigri sér við að kæra brot sem þær verða fyrir, af ótta við neikvæða umræðu gegn þeim, ótta við að málið verði látið niður falla eða af ótta við að vera kærðar fyrir meiðyrði ef sakfelling fæst ekki í málum þeirra. 

„Stundum þora þær ekki að kæra, stundum gera þær sér hreinlega ekki grein fyrir því að þær hafi orðið fyrir ofbeldi og svo vita þær bara hvernig kerfið virkar og hvernig fer fyrir ofbeldismálum í réttarkerfinu,“ segir Steinunn við mbl.is.

„Megnið af málunum eru felld niður og komast aldrei inn í dómsal þannig hægt sé að úrskurða um sekt eða sakleysi. Og hvaða úrræði hafa konur þá til þess að tala um það ofbeldi sem þær hafa verið beittar, án þess að útsetja sig fyrir meiðyrðakæru? Þetta er vonlaus staða.“

Þurfa sífellt að vera minnt á brot gegn þeim

Steinunn segir að þolendur ofbeldis þurfi að ganga í gegnum gríðarlega erfitt ferli þegar þeir kæra mál sín til lögreglu. Í raun gangi margir í gegnum endurtekna upplifun af brotinu (e. re-traumatizing experience) þar sem áföll dynja á þolendum á áföll ofan. 

„Ef þú verður fyrir ofbeldi og kærir það, þá er það fyrir marga mjög svona „re-traumatizing“ og sérstaklega þegar niðurfellingarbréfið berst og ekki síst þegar fólk fær þau skilaboð frá samfélaginu að þú eigir ekkert að vera að tala um þetta vegna þess að sekt hans hefur ekki verið sönnuð og þú getir ekkert þess vegna verið að segja að hann hafi beitt þig ofbeldi.“

Fleiri leiðir til þess að ölast réttlæti

Steinunn segir að bent hafi verið á að margt megi laga í rannsóknum og saksóknum kynferðisbrotamála, vegna þess að mörg þeirra eru látin niður falla þrátt fyrir að sönnunargögn liggi fyrir. Þess vegna leiti sumar konur annað en til réttarkerfisins til þess að fá réttlæti í sínum málum.

„Það er auðvitað stór umræða í kringum réttlæti fyrir brotaþola. Og réttarkerfið er í raun bara ein leið til réttlætis, það eru til fleiri leiðir, en ef við tölum bara um réttarkerfið þá hafa Stígamót og mörg önnur samtök bent á að margt má betur fara í rannsókn og saksókn kynferðisbrotamála.

Má í því samhengi minna málin níu sem hafa nú verið send til Mannréttindadómstóls Evrópu einmitt til að vekja athygli á því að ekki er vandað til verka við rannsókn og mál felld niður þrátt fyrir sönnunargögn.  Þannig það eru ekkert öll kynferðisbrotamál bara orð gegn orði. Þarna má virkilega lyfta grettistaki og breyta.“

Hvað geta karlar gert?

Á Twitter í dag sést bersýnilega hve mikil samstaða ríkir á milli þeirra kvenna sem þar stíga fram – þær styðja hverja aðra, segjast trúa hverri annarri og bregðast almennt við sögum hverrar annarrar. Þótt margir karlmenn geri slíkt hið sama hafa einhverjar konur þó bent á þá „ærandi þögn“ sem ríkir meðal karlmanna um kynferðisbrotamál. Steinunn segir að karlar geti fyrst og fremst sýnt stuðning.

„Þeir geta lýst yfir stuðningi við brotaþola og kannski reynt að hugsa sig tvisvar um áður en þeir styðja aðra karlmenn, sem sakaðir eru um ofbeldi. Þeir eru kannski oftar í þeirri stöðu að gerandinn sé sá sem stendur þeim nærri þannig þeir þurfa oftar að hugsa sig um tvisvar áður en þeir taka afstöðu, og afstaðan sem þeir taka er oft með geranda, og það er í raun vandamálið.

Þannig þegar vinir þeirra eru ásakaðir um kynferðisbrot gætu þeir skoðað hvernig hægt er að hjálpa vini að taka ábyrgð frekar en að detta í meðvirkni.“

Steinunn segir að henni hafi komið á óvart hve margir hafi verið tilbúnir að taka afstöðu gegn þolendum í máli sem hefur verið umtalað undanfarið. Vísar hún þá til ásakana og kæru á hendur Sölva Tryggvasyni dagskrárgerðarmanni fyrir ofbeldisbrot.

mbl.is