Hættustig almannavarna enn í gildi víða

Frá eldsvoða í Heiðmörk sem geisaði í síðustu viku.
Frá eldsvoða í Heiðmörk sem geisaði í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjanesið hefur verið fært af hættustigi niður á óvissustig en Norðurland Vestra af óvissustigi upp á hættustig vegna mögulegrar hættu á gróðureldum. Lagt er bann við að hafa opinn eld utandyra. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.

þar segir að síðasta sólarhringinn hafi verið skúraveður víða suðvestanlands. Eftir stöðufund viðbragðsaðila og Veðurstofunnar sé niðurstaðan sú að hætta á gróðureldum sé enn að mestu óbreytt. Það sé byggt á fyrirliggjandi veðurspá og þeirri staðreynd að víðast hafi úrkoman ekki náð langt niður í jarðveginn og hann áfram þurr.

„Samkvæmt veðurspá eru NA áttir framundan með áframhaldandi þurkum. Hættustig almannavarna verður því áfram í gildi á þeim svæðum sem það náði til eða frá Breiðafirði að Eyjafjöllum. Það er aðeins á Reykjanesi sem úrkoman hefur verið að einhverju ráði og mun það svæði færast niður á óvissustig. Úrkoman hefur ekki náð inn á NV-land og því mun það svæði færast af óvissustigi upp á hættustig.“

mbl.is