Sýni benda til þess að mygla sé í Kvistaborg

Reykjavíkurborg áætlar að leikskólabörnin snúi aftur í Kvistaborg eftir sumarleyfi. …
Reykjavíkurborg áætlar að leikskólabörnin snúi aftur í Kvistaborg eftir sumarleyfi. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hluti þeirra sýna sem hafa verið tekin í leikskólanum Kvistaborg í Fossvogi benda til þess að mygla sé á skólasvæðinu. Niðurstöður fyrstu rannsóknar í leikskólanum sýna að frekari úttektar á húsnæði leikskólans er þörf. Eins og greint var frá í lok aprílmánaðar kom eitt myglustrok í leikskólanum út jákvætt og stunda leikskólabörnin nú nám sitt í öðru húsnæði.

Í svari Reykjavíkurborgar við skriflegri fyrirspurn mbl.is kemur fram að lokaskýrsla frá verkfræðistofunni Eflu um málið hafi ekki borist. Þegar hún hefur borist mun ákvörðun vera tekin um lagfæringar eða breytingar á leikskólanum. 

Niðurstöður fyrstu rannsóknar sýndu fram á að frekari úttektar á húsnæði leikskólans er þörf, en í þessum áfanga var aðeins hluti skólahúsnæðisins skoðaður,“ segir í svari borgarinnar. „Hluti af sýnum benda til þess að mygla sé í skólahúsnæðinu.

Gera ráð fyrir því að börnin snúi aftur eftir sumarfrí

Hvenær er útlit fyrir að börnin geti snúið aftur í Kvistaborg?

„Áætlað er að þau snúi aftur eftir sumarfrí en ekki er hægt að taka endanlega ákvörðun fyrr en búið er að gera heildarúttekt á húsnæðinu og ákvörðun liggur fyrir um hvað þarf að gera í framhaldinu,“ segir í svarinu.

Hafa einhver börn, foreldrar eða starfsmenn látið vita af veikindum sem gætu tengst myglu? 

Ekki er vitað um veikindi tengd myglu, hvorki hjá börnum né fullorðnum.

Leki kom upp í húsnæði Kvistaborgar vorið 2020 í hús­næði sem ný­lega hafði verið gert upp. Í loft­gæðamæl­ingu verk­fræðistof­unn­ar Mann­vits um sum­arið kom eitt myglu­strok út já­kvætt og var það af­hent um­hverf­is- og skipu­lags­sviði Reykja­vík­ur­borg­ar í júlí síðastliðnum. Leik­skól­inn fékk aft­ur á móti skýrsl­una um málið ekki af­henta fyrr en í mars­mánuði.

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi viðbrögð borgarinnar við myglu í húsnæði í samtali við mbl.is eftir að fregnir bárust af jákvæðu myglustroki í Kvistaborg. 

„Það sem ég hef verið að spyrja mig að er hvers vegna Reykja­vík­ur­borg tek­ur við hús­næði sem er ekki búið að tryggja að sé myglu­frítt og án þess að full­vissa sig um að viðgerðir hafi verið full­nægj­andi. Það virðist vera það sem er að klikka. Reykja­vík­ur­borg tek­ur á móti hús­næðinu og það er ekki full­unnið,“ sagði Valgerður þá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert