Ísrael verði að upplifa að það tapi á hernámi

Frá samstöðufundinum á Austurvelli í dag.
Frá samstöðufundinum á Austurvelli í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Fjöldi fólks kom saman á Austurvelli í dag til þess að sýna samstöðu með Palestínu. Vopnahlé milli vígasveita Hamas og Ísraels tók gildi snemma á föstudag, en yfir 250 létust í ellefu daga átökum, langflestir þeirra á Gaza. Einn skipuleggjenda samstöðufundarins segir söguna eiga eftir að endurtaka sig verði engar afleiðingar fyrir Ísrael. 

„Við sjáum þetta alltaf, Ísrael ræðst alltaf á Gaza á nokkurra ára fresti og að ráðast á Gaza er bara einn partur af vandamálinu. En þótt vopnahlé sé komið á núna erum við enn þá með grunnvandann af öllum þessum stríðsátökum og árásum sem við sjáum alltaf, hernámið, landránið, arðránið og þjóðernishreinsanir í Austur-Jerúsalem og víðar. Við erum að benda á að þetta sé búið núna en hvað svo?“ spyr Yousef Ingi Tamimi, einn skipuleggjenda samstöðufundarins, og bætir við: 

„Við erum ótrúlega yfirlýsingaglöð og fordæmum ofbeldi á Gaza, en ef við fylgjum þessu ekki eftir þá vitum við það miðað við söguna að það eru kannski bara þrjú fjögur ár í að það verði aftur ráðist á Gaza. Og í millitíðinni gerist það sama og síðast, fleiri Palestínumenn eru drepnir, fleiri hús eru tekin og eyðilögð, fleiri ólífutré eru brennd, aukið landrán og aukið arðrán. Þetta er svona eins og að sjá bara toppinn á ísjakanum þegar það eru gerðar árásir á Gaza.“

Ísrael fari eftir alþjóðalögum 

Yousef segist vilja að sett verði viðskiptabann á Ísrael þar til ríkið breyti um stefnu og fari eftir alþjóðalögum. 

Yousef Ingi Tamimi.
Yousef Ingi Tamimi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er hræddur um að það breytist ekkert mikið á næstu árum nema við tökum fastar á Ísrael. Krafa okkar með þessum fundi er líka að við viljum að það verði sett viðskiptabann á Ísrael þangað til þeir fylgja leikreglunum. Leikreglurnar eru Genfarsáttmálinn, alþjóðalög, samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Á meðan Ísrael fær ekki að finna fyrir því þegar það brýtur alþjóðalög þá heldur það bara áfram. Ef við ætlum að jafna leikinn aðeins og ef Ísrael á að sjá hag sinn í því að semja við Palestínumenn svo við sjáum raunverulegan frið, þá þarf að þvinga Ísrael að samningaborðinu – þeir þurfa að byrja að tapa á hernáminu til þess að finna fyrir því að þeir þurfi raunverulega að breyta stefnu sinni,“ segir Yousef. 

Hefði það einhverjar afleiðingar fyrir Ísrael ef Ísland eitt stæði að viðskiptaþvingunum? 

„Ísrael myndi ekki finna mikið fyrir því, en það er skömm fyrir Ísrael á alþjóðavettvangi ef við stöndum með mannréttindum og segjum að við séum ekki tilbúin að leyfa þeim að hernema, arðræna og stunda þjóðernishreinsanir. Efnahagslega séð hefur það kannski lítil áhrif en það eru þessi sterku skilaboð sem geta skipt máli. Eitthvert ríki þarf að taka fyrsta skrefið. Við erum lítil þjóð sem getum alveg haft sterka rödd,“ segir Yousef. 

Hann segir að tími yfirlýsinga sé liðinn. 

„Ísland hefur almennt staðið sig vel í málefnum Palestínu, komið með fullt af fallegum og góðum tillögum og hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu. En ég held að tími yfirlýsinga sé liðinn núna því við sjáum það að Ísrael er alveg sama, þau hlusta ekki á slíkar yfirlýsingar,“ segir Yousef. 

Gyðingdómur boði ekki hatur

Þá segir Yousef mikilvægt að endapunktur viðskiptaþvingana eða sniðgöngustefnu sé skýr:

„Við erum öll sammála um það að morð eru ógeðsleg, sama hvort það sé Palestínumaður eða Ísraelsmaður sem um ræðir. Við viljum að þetta stoppi allt, en þá verður þú samt að taka stærri leikmanninn sem hefur meiri völd og segja að ef hann fylgir ekki reglunum þá verði sett á hann viðskiptabann. Sniðgangan á sér byrjun og hún á sér enda, endirinn er alveg skýr; við sniðgöngum Ísrael þar til þeir byrja að fylgja alþjóðalögum, þar til Palestínumenn fái að snúa aftur til síns heima, þar til þeir skila Vesturbakkanum og Gaza. Það verður alltaf að vera endapunktur með viðskiptaþvingunum og sniðgöngustefnu.“

Frá samstöðufundinum á Austurvelli í dag.
Frá samstöðufundinum á Austurvelli í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Þá segir Yousef mikilvægt að hafa í huga að Ísrael sé lýðræðisríki og kjósendur geti á fjögurra ára fresti kosið sér leiðtoga. 

„Þegar við setjum viðskiptaþvinganir á Ísrael þá náum við kannski að breyta viðhorfi ísraelsks almennings svo hann hætti að kjósa þessa öfgaflokka sem vilja þetta stríð. Ég held til dæmis að viðskiptaþvinganir á Írak hafi ekki skilað neinum árangri því að Saddam Hussein var einræðisherra og það skipti þá engu því almenningur hafði engin völd til þess að berjast gegn stjórnvöldum. Ísraelskur almenningur getur það og þess vegna verðum við að setja viðskiptaþvinganir því þau verða að upplifa það að þau séu að tapa á hernáminu,“ segir Yousef. 

Þá segir Yousef það ekki vera til þess fallið að ná nokkrum árangri að stuðningsmenn Palestínu séu sakaðir um gyðingahatur. 

Frá samstöðufundinum á Austurvelli í dag.
Frá samstöðufundinum á Austurvelli í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

„Gyðingahatur, sama í hvaða formi það er, er ógeðslegt. Hvorki ég né nokkur annar sem ég þekki er tilbúin að taka þátt í eða skrifa undir hatur gegn gyðingum. Að setja samasemmerki á milli þess að gagnrýna stefnu Ísraelsstjórnar og gyðingahaturs er bara til að afvegaleiða umræðuna og til að koma í veg fyrir gagnrýni á Ísrael,“ segir Yousef og bætir við: 

„Mér finnst frekar felast gyðingahatur í því að setja samasemmerki á milli zíónisma og aðgerða Ísraels, og segja svo að það sé gyðingdómur. Gyðingdómur boðar ekki þetta, hann boðar ekki að ráðast á annað fólk, gyðingdómur boðar ekki hatur. Við sjáum það líka að hreyfingar gyðinga í Bandaríkjunum sem berjast gegn zíónisma eru alltaf að verða sterkari og sterkari. Við megum ekki láta fólk hræða okkur til hlýðni með því að segja að þessi skoðun sé gyðingahatur. Við verðum að geta gagnrýnt ríki án þess að vera stimpluð gyðingahatarar. Verandi sjálfur múslimi þá er ég mjög gagnrýninn á Sádi-Arabíu, en það þýðir ekki að ég hati múslima.“

mbl.is