„Hvar er þetta félag?“

Flugfélagið Play tekur á loft í sumar.
Flugfélagið Play tekur á loft í sumar. mbl.is/Hari

„Hvar er þetta félag? Það er hvergi í umræðunni,“ sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, um Íslenska flugstéttarfélagið, sem samið hefur við Fly Play um kaup og kjör flugfreyja og flugliða hjá félaginu. 

Drífa og Birgir Jónsson, forstjóri nýja flugfélagsins Play, mættust í Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Þar tókust þau á um lögmæti kjarasamninga sem gilda fyrir starfsfólk Play, sem ekki er í ASÍ. 

Drífa sagði í þættinum að hún hefði fundað með forsvarsmönnum félagsins og að fundurinn hefði skilið hana eftir með fleiri spurningar en svör. 

„Það læðist að manni sá grunur að þarna sé skúffustéttarfélag hjá Play sem samið er við,“ sagði Drífa. Hún segir að samningarnir sem gildi um störf flugfreyja og flugliða hafi verið gerðir áður en nokkur flugfreyja hafi verið ráðin inn í fyrirtækið og því ekki um samning á milli vinnandi fólks og atvinnurekanda að ræða. 

Birgir svaraði því til að þetta væru umræður sem ættu heima við samningaborð um kjarasamninga, ekki í útvarpsviðtali fyrir eyrum allra landsmanna. Hann kvaðst hafa margboðist til að funda með ASÍ en ekki viljað hafa fulltrúa flugfreyjufélags Íslands á þeim fundi, enda ættu þau ekki erindi á slíkan fund. 

mbl.is