„Þetta er fyrir neðan allar hellur“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flökkusögu um að ung kona hafi látist nokkrum klukkustundum eftir bólusetningu við Covid-19 af völdum blóðtappa í heila hefur verið dreift á samfélagsmiðlum undanfarna daga. Sambýlismaður hennar neyddist til þess að setja inn færslu á facebooksíðuna Covid19 – Opin umræða þar sem hann fjallar um þessa falsfrétt sem hafi ratað inn á þennan umræðuvettvang.

Að hans sögn lést kona hans eftir 19 vikna meðgöngu vegna blóðtappa í lungum og hún var óbólusett. Aftur á móti sagði flökkusagan – og henni fylgdi samsett mynd – að hún hefði verið komin 20 vikur á leið og látist af völdum blóðtappa í heila nokkrum klukkustundum eftir bólusetningu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það sé skelfilegt að verið sé að nýta sér svona hörmulegan atburð í þágu einhvers málstaðar. „Þetta er fyrir neðan allar hellur,“ segir Þórólfur, „gagnvart aðstandendum og öðrum er þetta skelfilegt í einu orði sagt,“ bætir hann við þegar blaðamaður spyr hann út í þennan söguburð. 

Hann segist ekki vita hvort yfirvöld muni taka á þessu á einhvern hátt, það verði skoðað.

mbl.is

Bloggað um fréttina