Gæti gerst hvenær sem er

Fylgst með eldgosinu í Geldingadölum.
Fylgst með eldgosinu í Geldingadölum. Ljósmynd/Ólafur Þórisson

Hraunrennsli hefur ekki tekist að umkringja útsýnishólinn við eldgosið í Geldingadölum sem var rýmdur í gær.

Að sögn Gunnars Schram, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurnesjum, hefur lokunarborði verið settur við hólinn þannig að fólk fari ekki þangað, enda hætta á að það verði innlyksa.

„Þetta gæti gerst hvenær sem er, eftir viku eða þetta gæti gerst núna,“ segir Gunnar en svo virðist sem dregið hafi eitthvað úr hraunrennslinu frá því sem var í gær.

„Við byrjuðum á þessu í gærmorgun þegar þessi framþróun varð. Okkur fannst stefna í þetta,“ segir hann um rýmingu hólsins.

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Myndavélar hjálpa til  

Aðspurður segir hann björgunarsveitarfólk ekki geta staðið við hólinn og vísað fólki frá allan sólahringinn og því var lokunarborðinn settur upp. Lögreglan fylgist vel með gangi mála, meðal annars í gegnum streymismyndavél mbl.is sem er stillt á þetta svæði.

Hann segir streymismyndavélar fjölmiðla hafa nýst lögreglunni mjög vel, en Veðurstofan er einnig með myndavélar á nokkrum stöðum.

Gunnar segir allt vera í jafnvægi sem stendur á gosstöðvunum. „Við fylgjumst mjög vel með og grípum inn í ef ástæða þykir til,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert