„Grefur augljóslega undan trausti“

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Málið er grafalvarlegt og grefur augljóslega undan trausti í samskiptum þessara miklu vina- og bandalagsþjóða,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í svari sínu við óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í dag. „Utanríkisráðuneytið hefur krafist skýringa frá Dönum og komið áhyggjum og vonbrigðum skýrt á framfæri.“ 

Eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi hefur komið fram að leyniþjón­usta Dan­merk­ur hjálpaði banda­rísku þjóðarör­ygg­is­stofn­un­inni NSA að njósna um leiðtoga í Evr­ópu, þar á meðal leiðtoga Þýska­lands þau Ang­elu Merkel kansl­ara og Frank-Walter Stein­meier for­seta. 

„Þetta er háttsemi sem að Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt mjög þegar kemur að pólitískum andstæðingum þeirra, við hljótum að gagnrýna þetta sama hver á í hlut,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna, í fyrirspurn sinni á Alþingi í dag.

Kolbeinn sagði einnig að fregnirnar sýna að það þurfi oftast ekki að leita langt yfir skammt, að það geta alveg eins verið okkar helstu vinir og bandamenn sem eiga í hlut þegar að slíkum málum kemur. Þá spurði hann Guðlaug Þór hvort hann hafi áhyggjur af þessum fregnum og hvort hann telji þörf á einhverjum sérstökum viðbrögðum vegna málsins. Þá spurði hann sömuleiðis hvort að hann telji að þetta sé eitthvað sem gæti komið upp hér á landi.

Kolbeinn Óttarson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna, var með óundirbúna fyrirspurn …
Kolbeinn Óttarson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna, var með óundirbúna fyrirspurn á Alþingi í dag. mbl.is/​Hari

Krefjast skýringa frá Dönum

Guðlaugur segir að ráðuneytið krefjist þess að Danir upplýsi hvort þessar njósnir hafi beinst að íslenskum hagsmunum, þar með töldum íslenskum stjórnmálamönnum, embættismönnum, stofnunum, fyrirtækjum eða einstaklingum hér á landi.

„Traust og trúnaður eru lykilþættir í samskiptum vinaríkja, mál á borð við þetta geta grafið undan slíku trausti. Það er nokkuð sem við þurfum ekki á að halda á tímum fjölþáttaógna,“ sagði Guðlaugur. „Því miður eru ríki sem hafa beinlínis hag af því að grafa undan trausti og samstöðu vina- og bandalagsríkja á vesturlöndum.“

Kolbeinn spurði hvort að áhyggjum hefðu sömuleiðis verið komið á framfæri við Bandaríkjamenn og hvort að þetta sé mál sem þurfi mögulega að ræða t.d. á leiðtogafundi NATÓ. „Auðvitað skiptir engu hvaða bandamenn okkar eiga í hlut en það var litið sérstaklega til þess að þar sem að við erum í miklu samstarfi þegar kemur að þessum málum við bandalags- og vinaþjóð okkar Dani,“ sagði Guðlaugur. „Þessi mál undirstrika mikilvægi þess að netöryggis- og netvarnarmál séu tekin föstum tökum og það er nokkuð sem ég hef lagt sérstaka áherslu á sem utanríkiráðherra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert