Þarf að treysta ungu fólki til forystu

Sjálfstæðisflokkurinn á ekki aðeins að vera skásti kosturinn, heldur skýrt og augljóst val til hægri, sem ekki eigi minna erindi við ungu kynslóðina en aðrar, segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í viðtali við Dagmál í dag, sem opið er öllum áskrifendum Morgunblaðsins.

Hún segir að við ríkisstjórnarmyndun þurfi vissulega að semja um eitt og annað, en Sjálfstæðisflokkurinn eigi ávallt að stefna að því að hafa forystu og leiða ríkisstjórnina. Sjálf gefi hún kost á sér til þess að leiða lista flokksins í Reykjavík, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að ná betri árangri í kosningum en verið hefur. Höfuðborgin eigi ekki að draga flokkinn niður í fylgi á landsvísu. og lykillinn að því sé að tala betur til unga fólksins, Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekki síður erindi við það en aðrar kynslóðir.

Áslaug Arna minnir á að Sjálfstæðisflokkurinn eigi góða sögu að segja af því að treysta ungu fólki og leiða það til forystu. Þess vegna leiti hún óhrædd eftir stuðningi í efsta sæti sjálfstæðismanna í Reykjavík í komandi Alþingiskosningum.

Í viðtalinu er einnig farið yfir helstu verkefni og áskoranir í dómsmálaráðuneytinu og það starf sem bíði nýrrar ríkisstjórnar í haust við endurreisnarstarf eftir heimsfaraldurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert