Þrívíddarlíkan af gosinu uppfært

Eldgos í Geldingadölum
Eldgos í Geldingadölum mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flogið var yfir eldgosið í Geldingadölum í gær til að mynda það í vísindaskyni en það hefur ekki verið hægt síðan 18. maí vegna lélegs skyggnis.

Birgir V. Óskarsson, jarðfræðingur hjá Náttúruvísindastofnun, tók myndirnar á Hasselblad-myndavél en með myndunum fást nýj­ustu töl­ur um rúm­mál, flat­ar­mál og hraun­flæði á gosstöðvun­um. Tölurnar eru svo birtar á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Að sögn Birgis heldur hraunið áfram að stækka, jafnt og þétt og ekki er útlit fyrir að það hætti að gjósa á næstunni.

„Þetta er komið í 2,6 ferkílómetra en það var rétt undir tveimur ferkílómetrum síðast þegar við skoðuðum svæðið. Hraunflæðið er í kringum 12 rúmmetra á sekúndu. Við vorum með svipaðar tölur síðast sem þýðir að þetta helst mjög stöðugt,“ segir hann. 

Nýjustu mælingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands staðfesta þetta:

Meðalhraunrennslið yfir tímabilið 18. maí – 2. júní (15 dagar) er 12.4 m3/s. Þessi mæling staðfestir að sú aukning á hraunrennsli sem varð í byrjun maí hefur haldist. Hraunrennsli í maí var því tvöfalt meira en var að meðaltali fyrstu sex vikurnar. Hraunið mælist nú 54 milljón rúmmetrar og flatarmálið 2,67 ferkílómetrar,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni. 

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur notað myndirnar hans Birgis til að útbúa þrívíddarlíkan sem sýnir dreifingu hraunflæðisins á gossvæðinu. Nýuppfærða útgáfu af líkaninu má sjá hér.

Loftmyndir af umbrotsvæðinu á Reykjanesskaga má svo sjá á vef Landmælinga Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert