Ragnheiður fyrst kvenna í mark

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir kom fyrst í mark kvenna í 161 km …
Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir kom fyrst í mark kvenna í 161 km hlaupi. Ljósmynd/Aðsend

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir kom fyrst kvenna í mark í 161 km hlaupi Salomon Hengill Ultra á tímanum 26:17:18. 

Fimmtán keppendur hófu hlaupið í gær en fimm eru komnir í mark og er enn beðið eftir Mari Jaersk sem leiddi kvennaflokkinn fyrr í dag.

Búi Steinn Kárason var fyrstur í mark í 161 km á tímanum 23:50:40.

Salomon Hengill Ultra Trail er stærsta utanvegahlaup Íslands enda um að ræða eina fallegustu hlaupaleið landsins. Rúmlega 1.300 keppendur voru skráðir sig til leiks í allar vegalengdir keppninnar um helgina en Hengill Ultra var fyrst hlaupið árið 2012.

15 hófu keppni í gær 161 km hlaupinu.
15 hófu keppni í gær 161 km hlaupinu. Ljósmynd/Aðsend

Skrikaði fótur við sigurdansinn

Einar Bárðarson, einn af skipuleggjendum hlaupsins, segir í samtali við mbl.is að aðstæður þetta árið hafi verið áskorun. „Það er búið að vera rigning, rok og mikil þoka, en keppendur hafa borið sig vel.“ Einar segir þó að engin slys hafi orðið á fólki fyrir utan einn sem tók sigurdans þegar hann var kominn í mark og skrikaði fótur.

„Við fylgjumst vel með hvar fólk er í brautinni og því var auðvelt að gefa þeim leiðsögn sem hringdu þegar þeir villtust í gegnum þykkustu þokuna.“

10 mínútum á undan markmiðinu

Árni Már Sturluson var fyrstur í karlaflokki í 106 km hlaupinu og Anna Halldóra Ágústsdóttir fyrst kvenna. Í 53 km hlaupinu var Þorbergur Ingi Jónsson fyrstur karla og Anna Berglind Pálmadóttir fyrst kvenna. Einnig var keppt í 26 km, 10 km og 5 km.

Einar segir að vegna aðstæðna hafi margir ekki náð sínu markmiði þetta árið en nefnir þó að Búi hafi verið 10 mínútum á undan markmiði sínu. „Hann er enginn nýgræðingur, hvorki í þessu hlaupi né utanvegahlaupi,“ segir hann en bæði Búi og Ragnheiður unnu Hengil Ultra 106 km árið 2019.

mbl.is