Tvö þúsund kusu í gær

Valhöll. Um 2.000 manns kusu íprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í gær.
Valhöll. Um 2.000 manns kusu íprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Um tvö þúsund manns greiddu atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í gær. Prófkjörið stendur yfir í tvo daga, í gær og í dag. Nokkur fjöldi hafði áður greitt atkvæði utan kjörfundar. Heildarfjöldi atkvæða var því 3.700 eftir gærdaginn.

Í síðasta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík haustið 2016 greiddu alls 3.430 atkvæði. Því er þegar ljóst að kjörsókn verður meiri í prófkjörinu í ár en árið 2016.

Mikil stemning í gær

Kristín Edwald, formaður kjörstjórnar, sagði kosningarnar hafa farið vel fram í gær. Mikil stemning hefði verið meðal flokksmanna. Hún gerir ráð fyrir að fyrstu tölur berist um kvöldmatarleytið í dag.

Kjörstaðir verða opnir frá kl. 10 til 18 í dag en atkvæðisrétt hafa allir flokksbundnir sjálfstæðismenn í Reykjavík. Þrettán frambjóðendur taka þátt í prófkjörinu. Allir sitjandi þingmenn flokksins gefa kost á sér á ný en tæpur helmingur frambjóðenda hefur ekki setið á þingi áður.

Ráðherrar takast á

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra takast á um fyrsta sætið í prófkjörinu. Prófkjörið er sameiginlegt fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður og suður. Þeir frambjóðendur sem lenda í tveimur efstu sætunum verða því oddvitar flokksins hvor í sínu Reykjavíkurkjördæminu.

Í síðasta prófkjöri flokksins árið 2016 varð Ólöf heitin Nordal í efsta sæti, Guðlaugur Þór í öðru sæti, Brynjar Níelsson í því þriðja og Áslaug Arna lenti í fjórða sæti.

esther@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert