Nýr styrkur fyrir nemendur í Háskólagrunni HR

Frá vinstri, Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdarstjóri Austurbrúar, Dagmar Ýr Stefánsdóttir …
Frá vinstri, Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdarstjóri Austurbrúar, Dagmar Ýr Stefánsdóttir yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, Sigurður Ólafsson verkefnastjóri hjá Síldarvinnslunni (sem skrifaði undir sem staðgengill Hákonar Ernusonar), Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík og Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Nýr styrkur hefur litið dagsins ljós fyrir afburðarnemendur í Háskólagrunni HR. styrkurinn nefnist „Gletting,“ og koma Alcoa-Fjarðaál, Síldarvinnslan, Loðnuvinnslan, Eskja og Laxar að því að fjármagna styrkinn sameiginlega til tveggja ára.

Í tilkynningu frá Síldarvinnslunni segir Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, að verkefnið sé fyrst og fremst hugsað til þess að hvetja nemendur til dáða. 

„Þeir nemendur sem ljúka fullu námi á einu ári með hæstu einkunn hljóta styrkinn, sem nemur um 500.000 kr. á mann og er gert ráð fyrir að einn til tveir nemendur geti hlotið styrkinn á hverju ári,“ segir í tilkynningunni.

Nýtist iðnfyrirtækjum

Þá sé komin fær leið fyrir fólk sem hefur „áhuga á að skella sér í háskólanám en hefur ekki lokið stúdentsprófi eða vantar þekkingargrunninn til að hefja nám,“ og nefnir að háskólagrunnurinn miði einmitt að því að undirbúa fólk undir nám sem nýtist vel hjá fyrirtækjum á borð við Síldarvinnsluna.

„Það er engin tilviljun að iðnfyrirtækin hér á svæðinu eru þátttakendur í verkefninu. Með síaukinni tæknivæðingu í vinnslu og veiðum verður til framtíðar gífurlega mikilvægt að við getum fengið tæknimenntað fólk til starfa hjá okkur,“ segir Hákon.

Námið verður samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri og verður fyrirkomulag þess sveigjanlegt, blanda af staðbundnu námi og fjarnámi, með aðstöðu í húsnæði Austurbrúar í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.

Umsóknarfrestur um námið er 15. júní og hvetur Síldarvinnslan áhugasama til að sækja um.

Nánari upplýsingar um námið má einnig nálgast á heimasíðu Háskólans í Reykjavík.

mbl.is