Heyrúlluplast í innlenda endurvinnslu

Um 2000 tonn af heyrúlluplasti fellur til á Íslandi á …
Um 2000 tonn af heyrúlluplasti fellur til á Íslandi á ári. Skapti Hallgrímsson

Fulltrúar Pure North Recycling, Bændasamtakanna, Skaftárhrepps og Sorpsamlags Strandasýslu undirrituðu í dag samning um samstarf sem mun gera bændum kleift að skila heyrúlluplasti í innlenda endurvinnslu.

Samstarfinu er ætlað að auka sjálfbærni Íslands, efla hringrásarhagkerfið og ýta undir bætta úrgangsstjórnun á Íslandi.

„Bændasamtökin hafa sett sér metnaðarfulla umhverfisstefnu og mikill metnaður er innan sveitarfélaganna um að gera betur í úrgangsmálum. Samstarfið mun stuðla að vitundarvakningu hér á landi um mikilvægi flokkunar og þau áhrif sem betri úrgangsstjórnun hefur á landbúnað. Með innlendri endurvinnslu styrkjum við jafnframt virðiskeðjuna á Íslandi og sköpum fleiri störf,“ segir í fréttatilkynningu frá Pure North Recycling.

Plastmengun sívaxandi umhverfisvandamál

Pure North Recycling endurvinnur plast með umhverfisvænum orkugjöfum og er jarðvarminn þar í aðalhlutverki. Í dag er Pure North Recycling eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Í endurvinnslunni er óhreinum plastúrgangi breytt í plastpallettur sem seldar eru til framleiðslu á nýjum plastvörum hér á landi og erlendis.

„Plastmengun er alvarlegt umhverfisvandamál af mannavöldum sem fer sívaxandi. Mikilvægt er að hver þjóð verði sjálfbær með sínu hringrásarhagkerfi og endurvinni sitt plast. Markmið endurvinnslunnar er að plast verði aftur að plasti og að fullvinnslan skilji eftir sig sem minnst eða ekkert kolefnisspor en engin kemísk efni eru notuð við vinnsluna,“ segir á vefsíðu fyrirtækisins.

mbl.is