„Magnaður hlaupaviðburður

Sigurður Brynjar Pálsson forstjóri BYKO og Valdimar Gunnarsson framkvæmdastjóri UMSK.
Sigurður Brynjar Pálsson forstjóri BYKO og Valdimar Gunnarsson framkvæmdastjóri UMSK.

Ungmennafélag Kjalarnesþings, UMSK, stendur þessa dagana að undirbúningi boðhlaups BYKO sem fer fram í Kópavogsdalnum föstudaginn 3. september 2021. Þá munu allir geta komið til með að taka þátt í sjálfu boðhlaupinu, hvorki er krafa um skráningu í íþróttafélag eða þátttöku í íþróttum. Þá segir í fréttatilkynningu UMSK að allt sem þarf sé gleðin sem felst í því að taka þátt í nýjum og skemmtilegum íþróttaviðburði með vinum og vinnufélögum og njóta samveru, tónlistar, gleði og veitinga í Fífunni meðan á hlaupi stendur og eftir það.

Fyrirkomulag hlaupsins er á þann veg að hlaupin er fjögurra kílómetra leið í Kópavogsdalnum, fjórir eru í hverju liði og skiptast þeir á að hlaupa með boðhlaupskefli fjóra kílómetra hver, eða alls 16 kílómetra á lið. Hlaupaleiðin er flöt og til þess fallin að bæði vanir hlaupagarpar og fólk sem er að byrja geta tekið fullan þátt í fjörinu.

Veitt verða verðlaun fyrir besta árangur liðs í karla-, kvenna- og blönduðum flokki. Einnig verða veittar viðurkenningar fyrir bestu stuðningssveitina og besta stemningsliðið. „Þetta verður algjörlega magnaður hlaupaviðburður, frábær skemmtun fyrir alla hlaupara bæði byrjendur sem lengra komna,“ segir Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings, í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert