Ók á yfir tvöföldum hámarkshraða

Bifreið var stöðvuð eftir hraðamælingu seint í gærkvöldi í Laugardal, en hraði bifreiðarinnar var mældur 144 kílómetrar á klukkustund þar sem leyfilegur hámarkshraði er 60 kílómetrar á klukkustund. Ökumaður bifreiðarinnar var aðeins 17 ára og var málið unnið með aðkomu föður hans og tilkynnt til barnaverndar, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. 

Annar 17 ára ökumaður var stöðvaður í Garðabæ á öðrum tímanum í nótt. Hraði bifreiðarinnar var mældur 120 kílómetrar á klukkustund þar sem hámarkshraði er leyfður 80 kílómetrar á klukkustund. Málið var unnið með aðkomu móður ökumannsins og tilkynnt til barnaverndar. 

Nokkur fjöldi ökumanna var í nótt stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Skömmu fyrir klukkan 18:30 í gærkvöldi var maður handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var maðurinn vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. 

Á miðnætti var ökumaður stöðvaður þar sem bifreið hans var búin nagladekkjum og reyndist einnig vera ótryggð. Voru skráningarmerki bifreiðarinnar fjarlægð. 

Þá voru fimm bifreiðar stöðvaðar í Breiðholti í gærkvöldi vegna hraðaksturs. Mældur hraði bifreiða var frá 83 til 89 þar sem leyfilegur hámarkshraði er 50 kílómetrar á klukkustund. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert