Hælisleitendum boðin þjónusta á ný

Hælisleitendur mótmæla við húsnæði Útlendingastofnunar.
Hælisleitendur mótmæla við húsnæði Útlendingastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlendingastofnun hefur þegar boðið þeim einstaklingum sem sviptir voru þjónustu á vegum stofnunarinnar á ný. Þetta staðfestir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í samtali við mbl.is.

Fæðispeningar og framfærslufé, sem þeir fengu ekki greidda á meðan þeir nutu ekki þjónustu, verða greiddir í dag og næstu daga. 

Fram kemur í skriflegu svari Þórhildar að um sé að mál einstaklinga þar sem fyrir liggur endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi um að þeim beri að yfirgefa landið. 

Viku sér undan brottvísun

Stoðdeild ríkislögreglustjóra hafði þegar skipulagt flutning einstaklinganna til Grikklands, þar sem þeir njóta alþjóðlegrar verndar „en undan þeirri framkvæmd viku einstaklingarnir sér með því að neita að undirgangast PCR-próf sem grísk stjórnvöld gera kröfu um að sé framvísað á landamærum.

Sömuleiðis kemur fram í svari Útlendingastofnunar að ákvörðun um niðurfellingu þjónustu var tekin á grundvelli reglugerðar um útlendinga þar sem gert er ráð fyrir að þjónusta falli niður við ákveðin skilyrði, meðal annars á þeim degi þegar ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli yfirgefa landið kemur til framkvæmdar. 

Kærunefndar útlendingamála úrskurðaði í gær að ekki sé skýrt kveðið á í lögum og reglugerðum um útlendinga hvenær og við hvaða skilyrði þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd fellur niður.

mbl.is