Opið fyrir alla í Janssen og 9.000 skammtar eftir á hádegi

„Þetta er lokaspretturinn,“ segir Ragnheiður að lokum og hvetur um …
„Þetta er lokaspretturinn,“ segir Ragnheiður að lokum og hvetur um leið alla þá sem fengið hafa Covid-19 og eru því með mótefni í blóði til að koma í bólusetningu en þau voru boðuð í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 9.000 skammtar voru eftir af Janssen-bóluefninu nú rétt fyrir hádegi í dag og er öllum velkomið að mæta í bólusetningu út daginn. Þetta staðfestir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.

„Það var dræm mæting í morgun og því ákváðum við að opna fyrir alla,“ segir hún en bætir við að allir séu velkomnir sem eru fæddir árið 2002 og fyrr, að undanskildum barnshafandi konum.

Lokaspretturinn

Engar biðraðir hafa myndast í dag hingað til og því ætti að ganga vel að taka á móti fólki. Um 14 þúsund skammtar voru í upphafi dags og nú eru fimm þúsund farnir. Því má áætla að um níu þúsund skammtar séu eftir.

„Þetta er lokaspretturinn,“ segir Ragnheiður að lokum og hvetur um leið alla þá sem fengið hafa Covid-19 og eru því með mótefni í blóði til að koma í bólusetningu en hópurinn fékk boð í bólusetningu í dag.

mbl.is