Gat ekki hugsað sér að sitja áfram í framkvæmdastjórn Viðreisnar

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar, hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn flokksins sem hann hefur setið í frá upphafi. „Ég gat bara ekki hugsað mér að sitja áfram í framkvæmdastjórn,“ segir hann í samtali við mbl.is.  

Klíkuskapur, ólýðræðislegar aðferðir og valdsmannsleg framkoma fámenns hóps. Svona lýsti Ingólfur Hjörleifsson ástandinu í Viðreisn í viðtali við mbl.is gær. Ingólfur afþakkaði sæti á lista flokksins í kjölfar þess að Benedikt fékk ekki sæti á lista flokksins í Reykjavík.

Í samtali við mbl.is gerir Benedikt greinarmun á upplifun sinni og Ingólfs en upplifun hans af vinnubrögðum innan flokksins undanfarin misseri er þó ansi lík upplifun Ingólfs.

Ekki nægur tími til að halda prófkjör

„Upphafið að þessu var fundur Reykjavíkurráðs nú í febrúar en þá lagði ég fram tillögu þess efnis að haldið yrði prófkjör þar sem nokkrir sóttust eftir efstu sætum á listunum hér í Reykjavík. Sú tillaga var felld með miklum meirihluta og með þeim rökum að ekki væri nægur tími til stefnu til þess að halda prófkjör. Þetta var snemma í febrúar,“ segir Benedikt.

Nú hafa flestir stjórnmálaflokkanna haldið prófkjör í millitíðinni. „Greinilegt að aðrir voru fljótari að hugsa og vinna en þessir félagar í Reykjavíkurráðinu.“ Benedikt segir augljóst að einhverjir innan ráðsins hefðu gert ráð fyrir þessari tillögu um prófkjör og „töluðu þeir mikið um tímaskortinn“.

Ingólfur hafði áður sett út á valið á uppstillingarnefndinni og verkferlum tengdum því. „Ég man ekki sérstaklega eftir því hvernig kynningum á þessu fólki var háttað, en ég þekkti nánast engan af þessu fólki, og ég hef nú verið manna duglegastur að sækja fundi í flokknum svona frá upphafi.“

Framganga formannsins veldur miklum vonbrigðum

Benedikt segir framgöngu formannsins í þessu ferli valda sér mestum vonbrigðum. „Það var lögð mikil áhersla á það frá formanni flokksins að byrjað væri á því að kynna listana í landsbyggðarkjördæmunum, þar sem fyrirséð var að yrðu karlar í efstu sætunum. Það var síðan notað sem rök í Reykjavík og í Kraganum að það yrðu að vera konur til þess að kynjajafnrétti væri náð.“

Benedikt segir öllum ljóst að um hannaða atburðarás sé að ræða. „Viðbótarsnúningur kom á þetta mál þegar að Jón Steindór, sem hefur verið í flokknum frá upphafi, var færður úr líklegu sæti í suðvestur og yfir í ólíklegt sæti í Reykjavík norður. Reynt að slá fleiri en eina flugu í sama höggi.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fámenn klíka náð völdum

Ingólfur lýsti því í dag að völdum hefði verið rænt af 20 til 30 manna klíku innan flokksins. Benedikt segist ekki viss um hve stór hópurinn sé en segir, „þetta kemur fyrst og fremst frá formanni flokksins og hópi í kringum hann“.

Spurður hvort hann geti hugsað sér að vinna áfram fyrir flokkinn eftir þessa atburði segir Benedikt, „ég hef sagt mig úr framkvæmdastjórn flokksins sem ég hef setið í frá upphafi. Ég gat bara ekki hugsað mér að sitja áfram í framkvæmdastjórn“. Í framkvæmdastjórn flokksins sitja nú Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, og Þorsteinn Víglundsson, og Þórður Magnússon, formaður fjáröflunarnefndar, er áheyrnarfulltrúi.

Jón Steindór Valdimarsson var færður um kjördæmi af uppstillingarnefnd Viðreisnar
Jón Steindór Valdimarsson var færður um kjördæmi af uppstillingarnefnd Viðreisnar mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margir haft samband

Þá segir hann marga hafa haft samband við sig í kjölfar þessarar atburðarásar og lýst yfir „undrun og vanþóknun á þessum vinnubrögðum“. Hann segir einnig valda sér verulegum vonbrigðum að flokkur með slagorðið „almannahagsmunir framar sérhagsmunum“ sem ávallt hafi stefnt að því frá stofnun að skilja „klækjastjórnmálin“ eftir, nái ekki að starfa eftir þeirri línu. „Auðvitað rennur mér það til rifja að flokkurinn sem ég vann ötullega að stofnun sé ekki á þessum nótum lengur.“

Benedikt segir leiðinlegt að þetta komi upp núna, „í eðlilegu ástandi hefðu átt að vera mikil sóknarfæri fyrir flokk sem hefði haldið sig við þessi grunnprinsipp“.

Verður þú þá ekki bara að fara í útrás og stofna nýjan flokk?

„Það er ekkert ákveðið í þeim efnum, en það eru bara mjög margir sem hafa haft samband við mig sem hugsa nú með sér; „Nú er ég landlaus“.“

Og er þetta sama fólk og upplifði sig landlaust fyrir sjö árum þegar vinna við stofnun Viðreisnar hófst?

„Já, ég hugsa það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina