Byrja að tyrfa bráðlega

Þökur á svæðinu vestan við Búðaránna á Seyðisfirði.
Þökur á svæðinu vestan við Búðaránna á Seyðisfirði. mbl.is/Freyr

Hafist verður handa bráðlega við að tyrfa hluta þess svæðis sem lenti undir stóru aurskriðunni á Seyðisfirði 18. desember sl. Sjá má þökur á svæðinu vestan við Búðarána. 

Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings, sem hefur haft umsjón með hreinsunarstörfum á Seyðisfirði, segir að til standi a tyrfa blettinn neðan við veginn og að svæðið verði rammað inn með þökum. 

Hér sést sama svæði nokkrum dögum fyrr.
Hér sést sama svæði nokkrum dögum fyrr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Annars hefur verið sáð í sárin og hægt er að sjá að gras er tekið að spretta úr því. 

„Við ætluðum bara að ramma inn svæðið með þökum. Við ætlum ekki að tyrfa allt sárið, við munum sá áfram í það,“ segir Hugrún. 

Sáið hefur verið í sárin og gras tekið að spretta …
Sáið hefur verið í sárin og gras tekið að spretta úr þeim. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir góðan gang í hreinsunarstörfum. Verið sé að undirbúa malbikun á Hafnargötunni, á svæðinu þar sem stóra aurskriðan féll. Þar hefur vegurinn verið sundurgrafinn og þakinn aur. Á góðviðrisdögum eins og hafa verið undanfarið á Austurlandi þyrlast mikið ryk upp við umferð á veginum. 

Skriðan sem féll þann 18. desember var gríðarlega stór.
Skriðan sem féll þann 18. desember var gríðarlega stór. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hugrún segist vongóð um að hefja megi malbikunarframkvæmdir í sumar. „Þessu er smám saman að ljúka, bæði hreinsun og frágangi.“

mbl.is