Segir samgönguáætlun vanfjármagnaða

Björn Leví í ræðustól Alþingis.
Björn Leví í ræðustól Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir á Facebook-síðu sinni að upplýst hafi verið um að samgönguáætlun sé vanfjármögnuð um 1,5 milljarða á nefndarfundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis fyrr í dag. 

Þetta segir hann furðulegt þar sem hans skilningur við fjárlagavinnu hafi verið að áætlunin hafi verið fullfjármögnuð.

Vekur hann sömuleiðis athygli á gamalli færslu Sigurður Inga Jóhannessonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, frá því áætlunin var samþykkt á Alþingi þar sem hann sagði hana fullfjármagnaða.

Björn segist í færslunni skrifa frá fundinum og upplýsir jafnóðum um efni fundarins eða það sem þar kemur fram. 

Lilja segir verklok á Dynjandisheiði óbreytt

Tilefni fundarins var fréttaflutningur þess efnis að fallið hafi verið frá útboði stærsta áfanga vegaframkvæmda á Dynjandisheiði.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir á Facebook-síðu sinni að verklok haldist óbreytt þó að flýting verkefnisins hafi ekki gengið eftir. 

Hún segir að fram hafi komið á nefndarfundinum í dag að sumir áfangar heiðarinnar gangi framar áætlunum og segir fréttaflutning af seinkun „ekki fréttir“.

mbl.is