Skólp flæddi við hlið eldhússins í Fossvogsskóla

Í skýrslu EFLU kemur fram að ráðast þurfi í heildstæðar …
Í skýrslu EFLU kemur fram að ráðast þurfi í heildstæðar endurbætur á húsnæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í nýrri úttekt verkfræðistofunnar EFLU á Fossvogsskóla kemur fram að ráðast þurfi í ítarlegar endurbætur til að uppræta raka- og mygluvandamál í húsnæðinu og ekki sé hægt að gera það í áföngum, heldur þurfi allsherjarframkvæmdir til.

Húsnæðið beri þess merki að hafa fengið takmarkað viðhald síðustu ár.

Fossvogsskóli hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár vegna rakaskemmda og myglu og hafa foreldrar ítekað vakið athygli á veikindum barna sinna sem stunda þar nám.

Starfsemi skólans hefur verið færð tímabundið í Korpuskóla og eru börn flutt þangað með rútu á morgnanna. 

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að skólp leki úr lögnum við hlið eldhúss og matsals barnanna í kjallara eins hluta hússins. Þá fundust rakaskemmdir og mygla víða í húsnæðinu í gólfi, veggjum og þaki.

Mygla fannst meðal annars undir gólfdúk og umhverfis loftinntök. 

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Kristinn Magnússon

 „Tjöldin falla“

Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla, sendi skýrsluna til foreldra barna í skólanum undir heitinu „Tjöldin falla í Fossvogsskóla“. Hann segir að ljóst sé að margar viðgerðir í fyrri framkvæmdum hafi mistekist hrapallega.

Hann bíði þess að einhver axli ábyrgð á ástandinu en telji það hæpið í ljósi „tónsins á toppnum“ og vísar þar í fyrri samskipti foreldra við borgaryfirvöld.

Foreldrar barna í skólanum eru verulega ósáttir við stöðu mála.
Foreldrar barna í skólanum eru verulega ósáttir við stöðu mála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Megn skólplykt gaus upp

Í kjallara Meginlands, eins hluta byggingarinnar, er meðal annars matsalur barnanna staðsettur og eldhús. Inn af ræstigangi sem liggur að eldhúsinu er einnig rými fyrir dælubrunn.

Í skýrslunni segir að þegar hurðin inn í dælurýmið hafi verið opnuð hafi gosið upp megn skólplykt, en þarna eigi eingöngu að vera jarðvatn enda sé um opinn brunn að ræða.

Við nánari athugun hafi komið í ljós að tvær skólpdælur séu staðsettar í rýminu en þar hafi lagnir farið í sundur, skólp flotið ofan á rýminu og dælan útötuð óhreinindum. Staðsetning dælubrunnsins og ástand skólpdælunnar sé „afar óheppileg“ í ljósi þess að vinnsla og geymsla matvæla á sér stað í næsta rými.

 

mbl.is