„Tveggja manna tal sem getur ekki haft áhrif“

Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, hefur lagt til að nefndin taki fyrir nýlegan úrskurð NEL, nefndar um eftirlit með lögreglu. Það er þó ekki ljóst hvort hún geti gert það en hingað til hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd aðeins haft eftirlit með ráðherrum.

Jón Þór vill að það verði tekið til skoðunar að nefndin telur samtal lögreglumannanna tveggja ámælisvert, en ekki virðist hafa komið fram nákvæmlega á hvaða hátt. Jón Þór telur ljóst að að þarna fari fram tveggja manna tal sem geti ekki haft áhrif á fréttatilkynningu frá lögreglu daginn eftir.

Jón Þór bendir á að komið hafi fram í fjölmiðlum að hvorugur lögreglumannanna hafi komið nálægt því að semja fréttatilkynninguna sem send var út að morgni aðfangadags og þetta samtal sé því ekki hluti af framkvæmd, starfsaðferðum eða verklagi lögreglu.

Þar sem samtal þetta fór fram í einrúmi þar sem almenningur heyrir ekki til sé ljóst að ekki hafi verið kvartað til NEL vegna samtalsins. Það hafi einungis komið í ljós þegar myndbandsupptökur voru skoðaðar.

„NEL virðist ekki gera greinarmun á því að lögreglumenn hafi skoðanir og að þeir gæti fyllstu hlutlægni í störfum sínum,“ segir í tilkynningunni og jafnframt að það verði með engu móti séð að þetta einkasamtal hafi haft áhrif á vettvangi, enda bárust ekki kvartanir yfir framkomu lögreglumannanna.

Ekki víst að NEL sé á forræði nefndarinnar

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur eftirlitsskyldu með framkvæmdavaldinu og sjálfstæðum stjórnsýslunefndum eins og NEL. Það er mat Jóns Þórs að kanna þurfi hvort úrskurður NEL sé í samræmi við lögreglulög, lög um persónuvernd og verklagsreglur lögreglu um notkun búkmyndavéla.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði nú í morgun og vildu nefndarmenn fá skorið úr um það hvort NEL heyri undir málefnasvið stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis áður en málið yrði tekið til efnislegrar skoðunar. Óskað hefur verið eftir minnisblaði frá lögfræðingum þingsins um forræði nefndarinnar.

Annars kæmi til greina að NEL heyri undir allsherjar- og menntamálanefnd og getur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þá ekki tekið málið til frekari athugunar.

Niðurstaða frá lögfræðingum Alþingis ætti að birtast í byrjun næstu viku. Jón telur eðlilegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fái að taka málið til skoðunar enda er nefndin nú þegar með starfshætti dómsmálaráðherra til skoðunar vegna þessara sömu atvika. Hingað til hefur eftirlitsvald nefndarinnar aðeins náð til ráðherra en ekki sjálfstæðra stjórnsýslunefnda.

Mynd frá opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Mynd frá opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lyktar af pólitík

„Lagabreytingin í vor var einmitt til þess að grípa ákveðið tómarúm þar sem þú ert kominn með vald sem heyrir ekki undir ráðherra og þar af leiðandi ekki undir eftirlit Alþingis. Þannig varstu kominn með þessar sjálfstæðu stjórnsýslunefndir sem voru búnar til og áttu að veita aðhald. Þær ættu því nú að vera með aðhald frá Alþingi,“ segir Jón Þór. Hann bætir við að Alþingi ætti því að hafa vald til að slíta nefndinni og skipa hana upp á nýtt.

Jóni þykir pólitísk lykt af þessu. Það geti ekki talist gott fyrir réttarríki okkar að hægt sé að skamma lögregluna á þennan hátt fyrir persónuleg samtöl sem þeir eiga sín á milli. Hann bendir einnig á að það geti haft kulnunaráhrif á lögreglumenn í störfum sínum ef þeir geta ekki sinnt störfum sínum gagnvart pólitískt tengdum aðilum án þess að eiga í hættu að verða teknir til sérstakrar skoðunar án tillits til persónufrelsis þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert