Segir borgarstjóra og kerfið hafa brugðist

Frá framkvæmdum á Fossvogsskóla árið 2019.
Frá framkvæmdum á Fossvogsskóla árið 2019. mbl.is/Hallur Már

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og aðalmaður í skóla- og frístundaráði, segir niðurstöður skýrslu Eflu um húsnæði Fossvogsskóla enn verri en hana hafði órað fyrir. Borgarstjóri, stjórnkerfið og heilbrigðiseftirlitið hafi brugðist fullkomlega í málinu.  

„Þetta er auðvitað hræðilegt en að sama skapi er maður ánægður að sjá að það sé kominn einhver endanlegur botn í málið. Ástandið á skólanum er hrikalega slæmt og þarna hafa börn og starfsfólk verið í óheilnæmu skólahúsnæði í lengri tíma,“ segir Hildur.  

Skýrsla Eflu leiddi í ljós rakaskemmdir og myglu víða í húsnæðinu, í gólfi, veggjum og þaki. Þá hafi skólp lekið úr lögnum við hlið eldhúss í kjallara hússins. Lagt er til að farið verði í allsherjarframkvæmdir á byggingunni og er stefnt á að þeim ljúki fyrir haustið 2022.

Málið hefur staðið yfir í tvö ár og hafa foreldrar ítrekað vakið athygli á veikindum barna í skólanum. Farið hefur verið í framkvæmdir en þær virðast ekki hafa dugað til.  

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi.
Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi. mbl.is/Sigurður Bogi

Þaggað hafi verið niður í málinu 

Hildur segir að reynt hafi verið að þagga niður í málinu í upphafi.  

„Það tókst mjög illa til að fá fulltrúa meirihlutans, borgarstjóra og hans aðstoðarmann og í rauninni stjórnsýsluna alla, hvort sem við tölum um skóla- og frístundasvið eða heilbrigðiseftirlitið, það vildi einhvern veginn enginn taka undir þau sjónarmið að húsnæðið væri óheilnæmt og ekki í lagi,“ segir hún.

„Það er ekki nema bara fyrir tilstuðlan foreldra sem sýndu mikið baráttuþrek í þessu máli sem við fáum þessa skýrslu í hendurnar.“

Hún segir málið birtingamynd stærri vanda hjá Reykjavíkurborg. 

„Vandamál eru leyst með plástrum sem endast aðeins fram yfir kosningar. Viðhaldsleysi skólahúsnæðis hefur verið viðvarandi í yfir áratug og staðan í Fossvogsskóla er afleiðing þess,“ segir Hildur. 

„Í málinu er ljóst að borgarstjóri, stjórnkerfið og heilbrigðiseftirlitið brugðust fullkomlega. Hvernig stendur á því að heilbrigðiseftirlitið gaf grænt ljós á heilnæmi skólahúsnæðisins? Þetta sama heilbrigðiseftirlit stöðvar og tefur atvinnustarfsemi hér um alla borg við minnsta tilefni, en sömu lögmál virðast ekki gilda þegar kemur að aðstæðum fyrir börnin okkar,“ segir hún. 

Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar.
Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar.

Borgarstjórn hafi alltaf valið að hlusta á áhyggjur

Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar sem einnig situr í skóla- og frístundaráði, segir vandann hafa legið í skorti á góðum verkferlum fyrir að taka á móti og bregðast við athugasemdum um myglu.

„Stóra vandamálið í þessu er að vandinn þurfti að fara alla leið til æðstu embættismanna eða pólitískrar yfirstjórnar til þess að það kæmist skriður á. Það á ekki að vera þannig,“ segir hún.

Hún segir mikilvægt að mótaður sé nýr verkferill um það hvernig tekið sé á móti móti vísbendingum um raka- og mygluskemmdir og hvernig þær eru unnar í kerfinu. Sú vinna standi nú yfir.

„Ég held að borgarstjórn hafi á öllum tímapunktum þegar að ákvörðun lá fyrir henni valið að hlusta á áhyggjurnar, valið að fara í nánari rannsóknir, valið að fara í þær framkvæmdir sem rannsóknir gáfu til kynna að þyrfti að fara í. Það sem við gerðum kannski ekki nógu vel var að þessi verkferill hefði átt að vera til staðar fyrr. Við erum að klára hann núna.“

Útikennsla við Fossvogsskóla fyrr á árinu.
Útikennsla við Fossvogsskóla fyrr á árinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún fagnar því að niðurstaða sé komin og að búið sé að komast að rót vandans. Farið verði í málið af fullum þunga í samráði við skólasamfélagið.

Spurð hvernig standi á því að enn sé svo margt að húsnæðinu þegar búið sé að fara í kostnaðarsamar viðgerðir segir Alexanda að fyrri rannsókn hafi ekki fundið allt sem var að húsnæðinu og það sé mjög miður. Verið sé að kanna stöðuna á fleiri húsnæðum í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert