Setja upp færanlegar stofur við Fossvogsskóla

Fossvogsskóli. Færanlegu stofunum verður líklega komið fyrir á bílastæði skólans.
Fossvogsskóli. Færanlegu stofunum verður líklega komið fyrir á bílastæði skólans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsti til þriðji bekkur Fossvogsskóla verður líklega í færanlegum kennslustofum við skólann næsta vetur. 

Fjórði til sjöundi bekkur mun hefja skólaárið í Korpuskóla, þar sem allir bekkir skólans hafa stundað nám síðustu mánuði, og vera þar að minnsta kosti fram að áramótum.

Frá og með áramótum verður skoðað að hafa fjórða til sjöunda bekk í færanlegum kennslustofum á skólalóð Fossvogsskóla.

Í úttekt verkfræðistofunnar EFLU Fossvogsskóla sem birt var í gær kemur fram að ráðast þurfi í ítarlegar endurbætur til að uppræta raka- og mygluvandamál í húsnæðinu.

Mygluvandi hefur verið í húsnæðinu í nokkurn tíma og áður hefur verið farið í framkvæmdir sem dugðu ekki til. Foreldrar barna í skólanum eru afar ósáttir vegna málsins.

Helgi Grímsson.
Helgi Grímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ýmsir möguleikar í stöðunni

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, segir að farið hafi verið yfir kosti og galla hverrar sviðsmyndar með skólasamfélaginu á fundi í gær.

Nú sé komin fram tillaga sem fer í formlega umsögn hjá skólaráði.

„Það hefur komið fram ósk um að yngstu börnin verði í færanlegum einingum við Fossvogsskóla,“ segir hann. Þá þurfi að skoða hvort gerlegt sé að hafa alla bekki í færanlegum einingum frá og með áramótum, skoða þurfi skipulagsmál og grenndarkynning þarf að fara fram.

Aðrar sviðsmyndir voru meðal annars að hafa alla bekki í Korpuskóla allt næsta skólaár eða að hafa 4. til 7. bekk þar og 1. til 3. bekk í færanlegum stofum við Fossvogsskóla.

Foreldrar hafa gert athugasemdir við tímann sem fer í að keyra börnin til og frá Korpuskóla. Auk þess er skólinn of lítill fyrir þennan fjölda barna og þá hefur fundist mygla í húsnæðinu.

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fossvogsskóli verði tekinn í notkun 2022

Helgi segir mestu skipta að geta tekið húsnæði Fossvogsskóla aftur í gagnið frá hausti 2022.

„Við erum að fara yfir og skerpa á öllum því auðvitað skiptir miklu máli að skólinn komist í notkun og þá fullbúinn frá og með hausti 2022. Það er algjört lykilatriði í okkar huga,“ segir hann.

Áætlanir sem settar hafa verið fram í kjölfar skýrslu EFLA gera ráð fyrir að framkvæmdum við skólann verði lokið í tæka tíð.

„Áætlanir eru þannig en við erum að fara yfir hvort það sé ekki alveg á hreinu að það standist. Það er verið að stilla saman bæði viðgerðum og eins líka framkvæmdir sem eru til að uppfæra húsnæðið í átt að þörfum skólastarfs til nútíðar og framtíðar,“ segir Helgi.

„Við erum að reyna að vanda okkur eins og frekast er unnt en auðvitað að reyna að skila húsnæðinu eins fljótt og nokkur kostur er.“

mbl.is