Framkvæmdi ónauðsynlegar aðgerðir á börnum

Heilbrigðisráðuneytið.
Heilbrigðisráðuneytið. Ljósmynd/Aðsend

Heilbrigðisráðuneytið staðfesti í morgun ákvörðun embættis landlæknis um að svipta háls-, nef- og eyrnalækni á Handlæknastöðinni í Glæsibæ starfsleyfi fyrir að hafa framkvæmt fjölda ónauðsynlegra aðgerða, þar á meðal á fimmtán ára stúlku og tveggja ára barni.

Í skýrslu embættis landlæknis kemur fram að alvarlegast hafi verið að læknirinn hafi framkvæmt 12 aðgerðir án viðurkenndra ábendinga en þá framkvæmdi hann einnig óeðlilega margar aðgerðir. 

Alls framkvæmdi hann 53 ónefndar aðgerðir á þriggja mánaða tímabili en aðrir læknar á sömu stofu framkvæmdu 0-2 aðgerðir af sama toga á því tímabili. Embætti landlæknis gerði athugasemdir við starfshætti og verklag læknisins í 22 af aðgerðunum 53. 

Fimmtán ára stúlku og tveggja ára barni sýnt sinnuleysi

Tólf einstaklingar gengust undir aðgerðir sem ekki virtist vera þörf á, þar á meðal 15 ára stúlka og tveggja ára barn, sem skýrsluhöfundum embættis landlæknis þótti sérstaklega ámælisvert. Segir í niðurstöðu landlæknis, með vísan til mats skýrsluhöfunda, að með því að gera tilefnislausa og óþarfa aðgerð í svæfingu á [...] tveggja ára barns hafi kærandi sýnt af sér dómgreindarleysi og sinnuleysi um velferð og öryggi barnsins.

Læknirinn kom þeim athugasemdum á framfæri að ekki hafi borið á alvarlegum fylgikvillum vegna aðgerðanna en í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins er vísað til þess að sjúklingur hafi fengið doða yfir tiltekinni aðgerð, sem sé merki um skaða á skyntaug. Að mati skýrsluhöfunda hafi verið hægt að koma í veg fyrir skaðann með því að framkvæma ekki aðgerðina.

SÍ krefja lækninn um fjórar milljónir

Í mörgum tilvikum framkvæmdi læknirinn þá skurðaðgerðir á rangan hátt eða með aðferðum sem ekki eru lengur viðurkenndar, að því er fram kemur í skýrslu embættis landlæknis. Þrátt fyrir að læknirinn andmælti þessu og segði eigin útfærslu hafa gefið góða raun áréttar embættið að málið snúist um hvort aðgerðaábending sé fyrir hendi eða ekki; sýna verði fram á sjúkdóm á einhverjum tímapunkti hjá öllum sjúklingum með skoðun og/eða tölvusneiðmynd þar sem fyrirhugað sé að framkvæma aðgerð.

Landlæknir er afdráttarlaus í úrskurði sínum varðandi starfshætti læknisins og telur að með því að gera ónauðsynlegar aðgerðir hafi öryggi sjúklinga verið stefnt í hættu og skurðaðgerðir sem gerðar séu að óþörfu séu ámælisverðar.

Sjúkratryggingar Íslands hafa þá krafið lækninn um fjórar milljónir króna vegna greiðslna úr sjúkratryggingum, sem ekki áttu rétt á sér á grundvelli laga um sjúkratryggingar. Komst SÍ að þeirri niðurstöðu þann 19. október 2020 eftir ábendingar í skýrslu embættis landlæknis þar sem niðurstaðan var sú að læknirinn hefði gefið út reikninga sem fái ekki staðist.

Embættið boðaði lækninum sviptingu starfsleyfis með bréfi þann 12. mars 2020 og veitti honum frest til að koma á framfæri andmælum og var hann sviptur starfsleyfi þann 25. júní 2020. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert