Miðar á Þjóðhátíð í Eyjum rjúka út

Fjöldi fólks leggur leið sína á Þjóðhátíð á ári hverju.
Fjöldi fólks leggur leið sína á Þjóðhátíð á ári hverju. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Miðar á Þjóðhátíð í Eyjum hafa rokið út frá því opnað var fyrir sölu þeirra 26. maí. Því nær sem dregur hátíðinni þeim mun erfiðara verður fyrir fólk að komast til Vestmannaeyja að sögn Harðar Orra Grettissonar, framkvæmdastjóra ÍBV.

„Miðasalan gengur bara mjög vel og það hefur verið mjög góður gangur á henni síðan við opnuðum fyrir sölu á miðum í maí.“

Spurður hvort hætta sé á því að miðarnir seljist upp segir Hörður dalinn geta tekið við miklum fjölda fólks en að flöskuhálsinn liggi í samgöngum til og frá Vestmannaeyjum.

„Við vorum að bæta við skipi, gamla Herjólfi, sem mun sigla ferðir á föstudegi og mánudegi. Ég veit að það er eitthvað örlítið eftir af þeim miðum í það skip. Eftir að þeir seljast upp verður mjög erfitt að komast til Vestmannaeyja. Samgöngurnar bara bjóða ekki upp á meira. Það er fyrst og fremst þar sem getur myndast flöskuháls. Þótt það sé alveg hægt að koma fleira fólki í dalinn verður alltaf erfiðara og erfiðara að komast til Vestmannaeyja eftir því sem nær dregur.“

Tvö flugfélög bjóða upp á flug á hátíðina

Sjóleiðin er þó ekki eina leiðin til Eyja en tvö flugfélög bjóða upp á flug á til Vestmannaeyja yfir hátíðina.

„Ég heyrði í flugfélögunum fyrir helgi og það gengur bara mjög vel hjá þeim að bóka. Bæði Icelandair og Ernir bjóða upp á ferðir til hingað,“ segir Hörður.

Dagskrá hátíðarinnar í ár er ekki af verri endanum en greint hefur verið frá því að rapp­ar­inn Emm­sjé Gauti muni stíga þar á svið ásamt fleiri tónlistarmönnum á borð við Bríeti, Aroni Can og Herra Hnetusmjöri. Þá verða þar einnig haldnir Aldamótatónleikar þar sem Birgitta Hauk­dal, Magni Ásgeirs­son, Hreim­ur Örn Heim­is­son, Gunni Óla og Ein­ar Ágúst Víðis­son munu stíga á svið.

Dagskrána er að finna á dalurinn.is en hún er þó enn í mótun að sögn Harðar.

„Við erum enn þá að fullmóta dagskrána þótt við séum búin að bóka langflest atriðin.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert