Sakar dómsmálaráðherra um ábyrgðarleysi

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allsherjar- og menntamálanefnd fundaði í dag vegna úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá því í júní. Þá felldi kærunefndin úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um að svipta hælisleitendur þjónustu, sem meðal annars fól í sér veitingu húsnæðis og fæðis, á grundvelli þess að þeir neituðu að gangast undir PCR-próf.

Gestir fundarins voru fulltrúar Rauða krossins, Reykjavíkurborgar, Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála, dómsmálaráðherra og embættismenn dómsmálaráðuneytisins. Fundurinn stóð í um það bil einn og hálfan tíma og hófst laust fyrir hádegi.

Hafa nú þegar breytt verklagi

Páll Magnússon er formaður nefndarinnar. Hann sagði málið hafa verið rætt en að því væri nú að mestu lokið í ljósi úrskurðarins: „Þetta verklag var metið sem svo að það stæðist ekki lög og þessu verklagi í samræmi við þessa niðurstöðu kærunefndarinnar.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, óskaði eftir fundi um efnið en sagði hann ekki hafa getað farið fram fyrr vegna sumarfría þó hún hefði sannarlega viljað funda fyrr. Henni þótti svör sumra gesta hafa verið óskýr:

„Í ljósi þeirra gagna sem ég hef fengið og eftir þennan fund þykir mér framkvæmdin, að hafa svipt fólk í þessum jaðarsetta hóp grundvallarstuðningi án lagaheimildar, vera til háborinnar skammar. Í flestum lýðræðisríkjum væri þetta afsagnarsök en ekki á Íslandi þar sem enginn tekur ábyrgð á gjörðum sínum,“ segir Þórhildur.

Hún beinir gagnrýni sinni sérstaklega að dómsmálaráðherra sem fer með útlendingamál.

„Það er augljóst að dómsmálaráðherra ætar ekki að axla neina ábyrgð á þessum mannréttindabrotum. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með ábyrgðarleysi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert