Vonar að fólk mótmæli ekki fyrir framan börnin

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bólusetningar barna á aldrinum 12-15 ára hefjast klukkan 10 í dag í Laugardalshöll og má gera ráð fyrir allt að 6 þúsund börnum fæddum 2006 og 2007. Bólusett verður með bóluefni Pfizer, eina bóluefninu sem veitt hefur verið markaðsleyfi fyrir þennan aldurshóp. 

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir við mbl.is að hún voni að ekki komi til þess að mótmælendur geri vart við sig við Laugardalshöllina í dag. 

„Ég á nú ekki von á því að þessi hópur fólks taki sér stöðu við Laugardalshöllina þar sem börnin sjálf eru. Það er von mín að þeir mótmæli einhvers staðar annars staðar, ef til þess kemur, þá einhvers staðar þar sem yfirvöld eru til húsa,“ segir Ragnheiður, en hún hefur áður sagst gera ráð fyrir að bólusetningum barna verði mótmælt. 

Þá segir hún að lögregla sé viðstödd í Laugardalshöll til þess að halda friðinn ef til þess kemur. 

Samþykki foreldra veitt með mætingu

Eins og ætíð hefur legið fyrir verða foreldrar þeirra barna á þessum aldri, sem boðuð eru í bólusetningu, að veita samþykki sitt. Það gera þeir einfaldlega með því að mæta á staðinn. Ragnheiður segir að foreldrar séu svo beðnir um að fylgja börnum sínum í gegnum allt ferlið. 

„Við óskum eftir því að foreldrar komi með börnunum og séu með þeim allt ferlið,“ segir hún. 

„Svo óskum við eftir því að foreldrar styðji það [barn sitt] í gegnum allan hringinn, bæði sitji við hliðina á því og veiti því almennan stuðning. Þetta er auðvitað sá hópur sem hefur verði hvað gjarnastur á að falla í yfirlið, þessi yngsti aldurshópur. Þannig að þá erum við líka að tryggja það að enginn meiði sig.“

Ragnheiður segir að þeir sem ekki mæta í dag með börn sín fái frest til þess að vega og meta hvort þeir vilji koma og ef fólk kemst ekki í dag þá sé hægt að mæta seinna. 

„Ef fólk á ekki heimangengt eða vill koma seinna þá er það ekkert mál og ef fólk vill hugsa málið eða er ekki alveg tilbúið þá er alveg hægt að koma seinna.“

Janssen-þegar ekki of seinir

Mæting Janssen-þega í örvunarbólusetningu var ekki eins og best verður á kosið síðustu tvær vikurnar. Í frétt fyrir viku sagði Ragnheiður að hún hefði viljað sjá mun fleiri þiggja boðinn örvunarskammt. Hún segir þó að ekki sé orðið of seint fyrir fólk að mæta. 

„Það er opið hús hjá okkur á Suðurlandsbrautinni frá 10 til 15, þannig að fólk getur enn þá mætt þangað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert