Óvissa um hvort hápunkti hafi verið náð

Hlaup stendur nú yfir í Skaftá.
Hlaup stendur nú yfir í Skaftá. mbl.is/RAX

Enn er óvissa um hvort að hápunkti hafi verið náð í hlaupinu í Skaftá að sögn Huldu Rós Helgadóttur, náttúruvásérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands. Í samtali við mbl.is segir Hulda að ástandið muni líklega skýrast á næstu klukkutímum.

„Rennslið og vatnshæðin við Sveinstind hefur staðið nokkurn veginn í stað í nokkrar klukkustundir,“ segir Hulda.

„Það er enn of snemmt að segja til um hvort að hápunkti hafi verið náð.“

Hún segir að það taki hlaupið nokkrar klukkustundir að berast neðar í ánna. Því sé hápunktur hlaupsins líklega ekki enn kominn fram neðar í Skaftá en vatnshæð er þó farin að rísa þar. „Það mælist smá hækkun við Kirkjubæjarklaustur og Eldvötn við Ása,“ segir Hulda.

„Fólk þarf því að fylgjast áfram vel með fram eftir degi. Ef þetta er hápunkturinn þá er þetta ekki gríðarlega stórt flóð.“

Veðurstofunni hefur ekki borist neinar tilkynningar um skemmdir eða annað slíkt að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert