Ég hélt hann væri dáinn

Hjónin Zeba og Khairullah frá Afganistan eru nú óhult á …
Hjónin Zeba og Khairullah frá Afganistan eru nú óhult á Íslandi en bíða þess að fá tveggja mánaða gamlan son sinn heim. mbl.is/Ásdís

Það er nokkuð einkennileg tilfinning að bruna á fína bílnum sínum til fundar við flóttafólk sem á nákvæmlega ekkert. Engar veraldlegar eigur, ekkert húsnæði, ekkert heimaland, enga peninga. Varla meira en fötin sem það stendur í. Það er þó ekki það versta því hjónin Zeba og Khairullah þurftu að skilja litla barnið sitt eftir í Afganistan.

Hjónin eru bæði hámenntuð og hafa unnið fyrir ríkisstjórnina, hún í jafnréttis- og kvennamálum. Þau tilheyra því hópi fólks sem er í hvað mestri lífshættu. Eina leiðin til að halda lífi var að flýja land og fyrir guðs mildi hafði Zeba stundað hér nám í fyrra við Jafnréttisskólann sem er liður í alþjóðlegri þróunarsamvinnu íslenskra stjórnvalda. Hún var því sett á dýrmætan lista fólks sem Ísland bauð skjól. Kornabarnið var næstum dáið í öngþveitinu fyrir utan flugvöllinn og þurftu hjónin því að taka þá erfiðu ákvörðun að skilja drenginn eftir í þeirri von að fá hann síðar til sín.

Þeir hefðu drepið mig

„Þeir hefðu drepið mig. Þeir voru byrjaðir að ganga hús úr húsi að leita að fólki sem vann fyrir ríkisstjórnina og þá sérstaklega konum. Við vorum í stórhættu en ég hef einnig stýrt mörgum vinnustofum um kvenréttindi og verkefni mín hafa verið fjármögnuð af UN-Women. Hefðu þeir vitað þetta allt saman myndu þeir drepa mig,“ segir Zeba.

Hún fæddist ári áður en stjórnartíð talibana hófst árið 1996 og var aðeins barn að aldri þegar þeir voru hraktir frá völdum.

Seinna átti Zeba eftir að snúa sér að jafnréttismálum eins og fyrr segir og kom hún hingað í janúar 2020 í skiptinám í Jafnréttisskóla Háskóla Íslands. Hér dvaldist hún í hálft ár.

Talibanar komust í öll gögn

Eiginmaður Zeba, Khairullah, er einnig hámenntaður en hann lærði stærðfræði í Kabúl og fékk síðan vinnu hjá afgönskum stjórnvöldum. Síðar fékk hann námsstyrk og lauk þá MBA-próf í Indlandi.

„Ég kom aftur til Afganistan 2017 og hóf störf hjá Amnesty International og þaðan fór ég í ráðuneyti kvennamála og vann sem forritari. Þar hef ég unnið í tvö ár. Við Zeba kynntumst í ráðuneytinu og höfum verið saman í næstum tvö ár og erum gift með lítið barn,“ segir Khairullah og segist hafa samhliða vinnu sinni fyrir kvennamálaráðuneytið unnið á skrifstofu forsetans og þar var hann einmitt við störf þegar talíbanar tóku yfir landið.

„Af því að hann vann á skrifstofu forsetans var líf hans í hættu. Talíbanar vilja ná til allra sem þar störfuðu,“ segir Zeba.

„Þarna voru upplýsingar um alla sem unnið hafa með erlendum ríkjum, fingraför og annað, og nú eru þeir að leita að þessu fólki. Tveimur dögum eftir að þeir tóku yfir sáum við að við værum ekki óhult þar sem við vorum því þeir höfðu nú allar upplýsingar um okkur. Það var mikil stress í gangi og við fluttum til mömmu hennar og planið var að færa okkur sífellt á milli ættingja,“ segir hann.

Arsalan þýðir hugrekki

Og þið eigið lítinn dreng?

„Já, hann er 52 daga gamall og heitir Arsalan,“ segir Khairullah og útskýrir að nafnið þýði hugrekki. Orð sem á vel við í dag því þau hafa þurft að sýna mikið hugrekki.

Litli Arsalan er aðeins tveggja mánaða og bíða nú foreldrar …
Litli Arsalan er aðeins tveggja mánaða og bíða nú foreldrar hans eftir að fá hann til sín til Íslands þegar flugvöllurinn í Kabúl verður aftur opnaður.

„Daginn sem við flúðum var mikið öngþveiti við flugvöllinn og talið er að þennan dag hafi um milljón manns verið þar. Þetta var miðvikudaginn 25. ágúst, daginn áður en sprengjuárásin var gerð á flugvellinum,“ segir Khairullah og útskýrir að þau hafi þá verið komin með leyfi til að fara til Íslands og staðfestingu um það í tölvupósti.

Khairullah hélt á barninu og reyndi að komast að hliðinu þar sem þeim yrði hleypt í gegn. Troðningurinn var svo mikill að allt í einu tók Khairullah eftir því að barnið hafði misst meðvitund.

„Hann hreyfðist ekki og var orðinn kaldur og opnaði hvorki augun né munninn. Ég hélt hann væri dáinn. Ég fór með hann að húsi þarna í nágrenninu og fékk að fara þar inn. Ég setti hann niður og byrjaði að hnoða brjóstkassann og þá tók hann að anda á ný.“

Of margar sorgarsögur

„Ég var í sjokki, en á þessum tíma var Zeba í röðinni til að sýna pappírana okkar. Ég hringdi í hana og sagði henni að við værum að fara til baka,“ segir hann og segir að barnið hafi líklega hætt að anda vegna súrefnisskorts af völdum troðningsins.

„Fólk var að ýta á hvert annað stanslaust,“ segir Zeba.

„Við fórum svo aftur að bílnum og ég náði sambandi við starfskonur Jafnréttisskólans, sem við vorum í stöðugu símasambandi við. Þær sögðu okkur að það væri verið að skoða hvort við kæmumst inn á flugvöllinn eftir annarri leið. Ég setti því barnið í bílinn og fór að athuga málið. Við treystum okkur ekki með barnið því við vissum ekki hvernig ástandið væri þarna. Ég sagðist koma aftur í bílinn ef ég sæi að þetta væri í lagi en svo reyndist þessi lausn fela í sér að fara aftur í gegnum þvöguna en með aðstoð hermanna,“ segir Zeba og útskýrir að þau hafi þvælst þarna fram og til baka þar til þau ákváðu að halda áfram án barnsins.

„Það voru öskur og læti en íslenskur starfsmaður á flugvellinum sem við höfðum verið sett í samband við sendi sérsveit eftir okkur og aðstoðaði okkur síðan við að komast í gegn hjá amerísku hermönnunum. Við vorum hrædd um líf sonarins, að hann myndi ekki lifa af troðninginn. Það voru ungabörn sem dóu þarna. Sum vegna súrefnisskorts og sum vegna þess að þau tróðust undir. Sum barnanna hafa orðið viðskila við foreldra sína. Það eru of margar sorgarsögur,“ segir Khairullah dapur í bragði.

„Svo komumst við um borð í herflugvél og flugum til Pakistan. Þar vorum við í sólarhring og flugum svo til Danmerkur og þaðan hingað.“

Framtíð fyrir soninn

Litli Arsalan varð eftir hjá ömmu sinni og frænku.

„Mamma mín og systir hugsa um barnið en það þarf tvo til, hann er svo óvær og með magakveisu. Ég var með hann á brjósti en nú fær hann þurrmjólk úr pela,“ segir hún.

„Þetta var afar erfið ákvörðun,“ segir Khairullah og kona hans tekur undir það.

Hún strýkur tár af hvarmi.

Þau vinna nú að því að fá barnið heim til Íslands.

„Við tókum þessa ákvörðun fyrir hans framtíð. Hann myndi ekki eiga neina framtíð í Afganistan. Það er óvíst að þar verði friður. Ég vil að barnið okkar fái annað líf en við. Þess vegna urðum við að skilja hann eftir svo við gætum komist út úr Afganistan,“ segir Zeba og segir að barnið hefði ekki átt framtíð ef foreldrar þess hefðu verið drepnir í heimalandinu.

Ítarlegt viðtal er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins við Zebu og Khairullah.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert