Muna þurfi það sem gerðist í sumar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst búast við því að þessari bylgju faraldursins muni smám saman slota.

„Ef við lítum bara á þróunina síðustu viku og svo núna yfir helgina þá getum við sagt það að kúrfan sé klárlega niður á við. Núna yfir helgina voru tekin færri sýni en áður, og við þurfum að sjá hver þróunin verður, en ég býst fastlega við því að þetta mjakist hægt og bítandi niður.“

Spurður hvort aflétting takmarkana sé á næsta leiti bendir hann á að núgildandi reglugerð gildi til 17. september.

„En hún er ekki komin að fullu til framkvæmda, það er að segja þessi möguleiki að hafa fjöldamörkin fimm hundruð manns með notkun hraðgreiningarprófa. Það er ekki komið í notkun þannig að það er kannski ekki tímabært að tala um einhverjar nýjar tilslakanir á þessu stigi.“

Koma verði í ljós hvenær hægt verði að nota hraðgreiningarprófin.

Bylgja beint í bakið

„Eins og við höfum alltaf sagt þá tekur eina til tvær vikur að sjá áhrif breytinga sem gerðar eru, þannig að þetta tekur allt saman sinn tíma.

En auðvitað er þetta allt bara til skoðunar alltaf. Það er alltaf verið að skoða hver staðan er og hverjir möguleikarnir eru, og við höfum alltaf reynt fram að þessu að fara svona hægt og örugglega í tilslakanir og hafa aðgerðirnar ekki meira íþyngjandi en þörf er á. Ég held að við þurfum að hafa það að leiðarljósi áfram,“ segir Þórólfur.

„Við þurfum náttúrulega klárlega að muna eftir því hvað gerðist um mánaðamótin júní-júlí, þegar við afléttum öllu hér innanlands og slökuðum líka á skimunun á landamærunum. Þegar við fengum núverandi bylgju beint í bakið á okkur alveg um leið, eða um tveimur vikum eftir að tilslakanir tóku gildi. Við þurfum að hafa það í huga.“

Kemur alltaf eitthvað í gegnum landamærin

Með hliðsjón af því, sérðu fyrir þér á endanum að aflétta öllu hér innanlands svo lengi sem takmarkanir á landamærum haldast óbreyttar?

„Í mínum framtíðarbollaleggingum og tillögum til ráðherra þá taldi ég að forsendur þess að við gætum slakað á innanlands væru að við hefðum góð tök á landamærunum. En ég taldi líklegt að á meðan faraldurinn er í svona miklum gangi erlendis, þá þyrftum við að hafa einhverjar takmarkanir hér innanlands til þess að bregðast því smiti sem þó kemur í gegnum landamærin.

Það kemur alltaf eitthvað í gegnum landamærin og ef við erum alveg með engar takmarkanir í gangi þá getur veiran breiðst mjög hratt út. Ég held því að það þurfi að vera sambland af þessu tvennu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert