Spjótin beinast nú að Claudiu

Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho.
Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óhætt er að fullyrða að spjótin beinist að Claudiu Sofiu Coel­ho Car­val­ho það sem af er skýrslutökum í aðalmeðferð Rauðagerðis-málsins í dag. Þriðji dagur aðalmeðferðar hófst laust eftir klukkan 9 í morgun. 

Fram kom í dómsal í gær, þegar rætt var við danskan rannsakanda, að erfitt væri að fullyrða að Claudia hefði handleikið morðvopnið, sem Angjelin Sterkaj notaði til þess að ráða Armando Beqirai bana þann 13. febrúar síðastliðinn að heimili þess síðarnefnda í Rauðagerði. 

Claudia er ákærð, ásamt þremur öðrum, Shpetim Qerimi og Murat Silevrada, fyrir samverknað með Angjelin. 

Leist ekki á blikuna

Fram kom í dómsal í dag þegar rúmenska parið Marius og Mihaila gaf skýrslu símleiðis, að Claudia hefði gengið erinda Angjelin klukkustundirnar eftir morðið. Bæði lýstu þau því, og sérstaklega Mihaila, að Claudia hefði verið nokkuð brúnaþung á þeim tíma, en hún hefur sjálf lýst því yfir að hafa ekkert vitað um morð, hvorki fyrir né strax eftir að það var framið.

Marius og Mihaila bjuggu við hlið Angjelin í Brautaholti 4 þegar morðið var framið. Þau eru nú í Rúmeníu og ávörpuðu dómara í gegnum síma, eins og fyrr segir. Mihaila lýsti því sérstaklega að hún hafi verið hrædd heima hjá sér, dagana fyrir morðið, af því Angjelin væri alltaf með byssu heimavið sem hann glennti framan í mann og annan. 

Angj­el­in Sterkaj.
Angj­el­in Sterkaj. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mihaila fór með manni sínum Mariusi norður í land, eftir að Angjelin og Claudia báðu hann að koma með bíl til þeirra með fötum til skiptana. Vitað er að Angjelin og Claudia fóru norður í land eftir að morðið hafði verið framið. 

Sagði Mihaila að hún hafi verið nokkuð áhyggjufull, hún hafði áður verið hrædd við nærveru Angjelin og í þokkabót bar fas Claudiu og Angjelin með sér að eitthvað grunsamlegt væri á seyði. 

Marius sagði fyrir dómara í dag að hann hafi komið til Íslands til að vinna, en ekki til að skapa sér neitt vesen. Angjelin hafi boðið honum að leigja íbúð í Brautarholti á ágætis verði gegn því að hann gerði fyrir sig greiða af og til. Það að fara norður í land eftir morðið var bara einn fjölmargra greiða. 

Þegar norður var komið lýsti Marius því að Angjelin og Claudiu væru að fylgjast með kvöldfréttum um morðið í Rauðagerði. 

Hringt til Rúmeníu

Verjendur hinna fjögurra ákærðu lýstu eilítilli vanþóknun sinni, með því að brosa út í annað og hnykla brýrnar, yfir því hvernig staðið var að skýrslutöku Mariusar og Mihailu. Þau búa saman og var hringt í síma Mariusar, en ekki var hægt að ganga úr skugga um að Mihaila hafi ekki staðið við hliðina á honum allan tímann.

Þegar skýrslutöku hans lauk beið héraðsdómur á línunni á meðan Marius rétti Mihailu tólið. Hófst þá skýrslutaka hennar í kjölfarið án þess að hægt væri að ganga úr skugga um að Marius hafi farið afsíðis. 

Undir þetta tók Guðjón Marteinsson dómari sem virtist viðurkenna að líklega væri þetta ekki ákjósanlegasti mátinn til þess að taka skýrslu af vitnum í sakamáli. 

Skýrslutökum verður áfram haldið í dag og á morgun. Fylgjast má með framvindu mála á mbl.is.

mbl.is