Atla Rafni dæmdar 1,5 milljónir í miskabætur

Atli Rafn Sigurðsson.
Atli Rafn Sigurðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur Íslands hefur dæmt Leikfélag Reykjavíkur til að greiða leikaranum Atla Rafni Sigurðarsyni 1,5 milljónir króna í miskabætur ásamt þremur milljónum króna í málskostnað.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að Leikfélagi Íslands hafi almennt séð verið heimilt að segja upp samningi við Atla Rafn í samræmi við þær meginreglur sem gilda á almennum vinnumarkaði.

Aftur á móti hafi félagið vikið í grundvallaratriðum frá þeim skráðu hátternisreglum sem það hefði átt að fara eftir við mat á framkomnum ásökunum á hendur Atla Rafni þótt uppsögnin væri beint tengd þeim.

Síðastliðið vor var greint frá því að Atli Rafn fengi að áfrýja til Hæsta­rétt­ar máli sínu gegn Leik­fé­lagi Reykja­vík­ur vegna upp­sagn­ar hans frá Borg­ar­leik­hús­inu í des­em­ber árið 2017. Hins veg­ar fékk hann ekki að áfrýja sam­bæri­legu máli gegn Krist­ínu Ey­steins­dótt­ur leik­hús­stjóra. Bæði leik­fé­lagið og Krist­ín voru sýknuð af kröf­um hans í Lands­rétti. Í héraðsdómi voru honum aftur á móti dæmdar 5,5 milljónir króna í bætur. 

Ágreiningur málsins laut að því hvort rétt hefði verið staðið að uppsögninni og ef svo væri ekki, hvort Atli Rafn ætti rétt til bóta fyrir fjártjón og miska.

mbl.is

Bloggað um fréttina