„Ég fór aldrei í stjórnmál fyrir stólana“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins í kosningasjónvarpi Stöðvar 2.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins í kosningasjónvarpi Stöðvar 2. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inga Sæland, oddviti Flokks fólksins, segist hæstánægð með framgang flokksins í alþingiskosningum þetta árið.

Flokkurinn náði alls 8,8% fylgi sem er um 1,9% meira fylgi frá því í síðustu alþingiskosningum 2017.

Flokkur fólksins fær sex kjördæmakjörna frambjóðendur inn á þing en enga jöfnunarþingmenn.

„Ég er bara endalaust ánægð og þakklát. Þetta er bara dásamlegt,“ segir Inga í samtali við mbl.is.

Aðspurð segir Inga ekki tímabært að svara því hvort hún vilji í ríkisstjórn. 

„Ég ætla nú að leyfa þessum degi að líða. Það þarf kannski ekkert að vera velta því upp að svo stöddu. Fyrrverandi ríkisstjórn heldur náttúrulega bara velli og það með sannfærandi hætti. Það er ekki nema þau fari að skylmast um forsætisráðherrastólinn. Annars held ég að þetta sé nú bara nokkuð skýrt.“

Komi til þess væri Inga tilbúin að fara í samstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn en það væri þó með skilyrðum, segir hún innt eftir því.

„Ef það yrðu afnumdir hér skattar og skerðingar að 350.000 krónum og þessir flokkar færu í það að brjóta niður múrana í kringum fátæktargildrurnar og fátækt fólk, þá fór ég í stjórnmál til þess. En ég held það sé ekki tímabært að vera tala um það þessa stundina. Ég fór aldrei í stjórnmál fyrir stólana heldur til þess að gera gott og vinna vel fyrir þá sem eru að treysta okkur fyrir þessum mikilvægu atkvæðum. Fyrir þá myndi ég allt gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert