Búast við hviðum upp á 45 metra á sekúndu

Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson siglir í var á Ísafjarðardjúpi. Mynd úr …
Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson siglir í var á Ísafjarðardjúpi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Svanhildur Egilsdóttir

Búast má við að vindhviður nái 45 metrum á sekúndu síðar í dag á láglendi á Vestfjörðum, svo sem í Ísafjarðardjúpi. Meðalvindur til fjalla mun þá slá upp í 28 metra á sekúndu, samkvæmt spám Veðurstofu Íslands.

„Veðrið er í raun ekki enn almennilega byrjað fyrir vestan, en það mælist núna stormur á norðaustanverðu landinu,“ segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.

Meiri vindur og snjókoma

Mikil úrkoma er nú á Norðausturlandi, þar sem snjóar til fjalla en rignir á láglendi. Eftir því sem lægðin færir sig vestar má þó búast við meiri vindi og sömuleiðis snjókomu nær sjávarmáli.

Þegar hefur mælst vindur upp á meira en 30 metra á sekúndu á Norðausturlandi.

Á Vestfjörðum má reikna með að það taki að draga verulega úr vindi um klukkan átta til níu í kvöld.

mbl.is