Smit rakið til tveggja á kosningavöku Pírata

Smit hafa verið rakin til kosningavöku Pírata í Ægisgarði á …
Smit hafa verið rakin til kosningavöku Pírata í Ægisgarði á laugardag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir er sóttu kosningavöku Pírata sem haldin var í Brugghúsinu að Ægisgarði á laugardag hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni. Þá hefur smitrakningarteymi haft samband við alla þá er þurfa að fara í sóttkví sökum þessa.

Þetta kemur fram í tölvupósti sem Píratar sendu gestum um korter fyrir sex í dag og mbl.is hefur undir höndum.

Fram kemur að öllum gestum á kosningavökunni hafi verið gert að skrá sig við komu og að allir þessir einstaklingar hafa fengið skilaboð um að gæta varúðar næstu daga.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem smit er rakið til kosningavöku en í gær tilkynnti Framsóknarflokkurinn að einn einstaklingur hafi verið smitaður á kosningavöku þeirra.

„Í gærkvöldi greindust Covid-smit hjá tveimur aðilum sem sóttu kosningavöku Pírata á Brugghúsinu Ægisgarði laugardagskvöldið 25. september. Smitrakningarteymi hefur nú þegar haft samband við öll sem þurfa að fara í sóttkví vegna þessara smita, en gestir Pírata síðasta laugardag eru hvattir til að vera vakandi fyrir einkennum Covid-19 næstu daga og fara tafarlaust í sýnatöku finni þeir fyrir einkennum. Frekari upplýsingar um einkenni Covid-19, smitgát og sýnatökur má finna á covid.is,“ segir í tölvupóstinum frá Pírötum.

Töluverður fjöldi mætti á vökuna.
Töluverður fjöldi mætti á vökuna. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert