Rannsókn í máli Arons Einars tekin upp að nýju

Mál Arons Einars Gunnarssonar er til rannsóknar að nýju ef …
Mál Arons Einars Gunnarssonar er til rannsóknar að nýju ef marka má heimildir RÚV. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók nú fyrir skömmu upp að nýju rannsókn á meintu broti fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu, Arons Einars Gunnarssonar.

Aron sagði í yfirlýsingu nú í dag að ástæða þess að hann hafi ekki verið valinn í landsliðshóp hlyti að vera þær sögusagnir sem væru á kreiki um meint brot hans í Kaupmannahöfn árið 2010. Þá þvertók Aron fyrir að hafa brotið gegn neinum.

Í áðurnefndri yfirlýsingu frá Aroni sagðist hann óska eftir því að fá að gefa skýrslu hjá lögreglu um umrætt kvöld og atburði þess fyrir ellefu árum síðan. Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV var lögð fram kæra vegna málsins á sínum tíma en kæran síðar dregin til baka.

Rúv greindi frá málinu nú í kvöld og var nýverið óskað eftir því að rannsókn málsins yrði tekin upp að nýju. Það hefur nú verið gert ef marka má heimildir RÚV.

Aldrei hafa brotið á neinum

Yfirlýsing Arons hefur fengið misgóðar undirtektir netverja líkt og mbl.is fjallaði um nú í kvöld. En í yfirlýsingunni sagðist hann aldrei hafa brotið á neinum og að lögreglan hafi aldrei haft samband við hann vegna málsins.

Þá taldi hann næsta víst að fráfarandi stjórn hafi haft mikið með það að gera að hann var ekki valinn í landsliðshópinn.

mbl.is
Loka