Aðgerðirnar hér „að einhverju leyti“ harðari

Frá skimun í Leifsstöð. Þar er kórónuveirunnar leitað.
Frá skimun í Leifsstöð. Þar er kórónuveirunnar leitað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðgerðir á landamærum vegna kórónuveirufaraldursins eru í stöðugri endurskoðun og segir yfirlæknir á sviði sóttvarna að Ísland sé „að einhverju leyti“ með fremur harðar aðgerðir við sín landamæri, miðað við önnur lönd Evrópu. Á síðastliðnum mánuði hafa 140 greinst smitaðir af kórónuveirunni á fyrstu viku eftir komu til Íslands.

Smitum innanlands hefur fjölgað aðeins í þessari viku og voru þau í gær og í fyrradag yfir 50 talsins. Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá Embætti landlæknis, segir að þrátt fyrir það sé ánægjulegt að hlutfall þeirra sem greinast innan sóttkvíar hafi hækkað.

„Það hefur líka verið aukning á hlutfallinu sem hefur verið að greinast í sóttkví. Þar var hlutfallið áður í kringum 35% en síðustu daga hefur hlutfallið verið í kringum 50 eða 60 prósent vegna þess að þetta er fólk sem er að greinast í sóttkví tengd þessum fyrri smitum. Það er gott því að þetta fólk væri annars á ferðinni ef það væri ekki í sóttkví,“ segir Guðrún.

Bólusetningar virðast enn veita góða vörn gegn alvarlegum veikindum af …
Bólusetningar virðast enn veita góða vörn gegn alvarlegum veikindum af völdum Covid-19. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tvö börn á spítala

Börn eru áberandi stór hluti þeirra sem hafa greinst undanfarið og eru langflestir sem eru í einangrun á aldrinum sex til tólf ára. Börn sem eru undir 12 ára aldri hafa ekki fengið bólusetningu gegn Covid-19. Í aldurshópnum 12 til 15 ára eru það börn sem eru ekki bólusett sem hafa verið að smitast, að sögn Guðrúnar. Tvö börn eru nú á spítala, ekki á gjörgæslu.

„Bólusetningin virðist vernda. Það getur vel verið að þetta Delta-afbrigði sé bara meira smitandi almennt og þar sem börn eru ekki bólusett og smitast þau frekar,“ segir Guðrún og vísar til Delta-afbrigðis kórónuveirunnar sem hefur verið ríkjandi í útbreiðslu smita undanfarna mánuði.

Þó óbólusett börn séu stór hluti þeirra sem hafa verið að smitast undanfarið eru fullbólusettir einstaklingar einnig enn að smitast. Spurð hvort til skoðunar sé að bjóða fullbólusettum frískum einstaklingum örvunarskammta af bóluefni til þess að stemma stigu við útbreiðslu smita segir Guðrún að ekki hafi verið talin þörf á slíku en áfram sé fylgst með þeim rannsóknum sem gerðar eru.

„Enn virðast bólusetningarnar virka mjög vel gegn alvarlegum veikindum og sjúkrahúsinnlögnum. Fjöldi á spítala hefur verið nokkuð stöðugur hér svo það hefur ekki þótt ástæða til að koma með þær ráðleggingar,“ segir Guðrún.

Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis.
Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis. Ljósmynd/Landlæknir

140 manns sem komu að utan greindust

Sem stendur þurfa bólusettir erlendir ferðamenn sem hingað koma að framvísa vottorði um neikvæða niðurstöðu úr Covid-prófi fyrir komuna til landsins. Bólusettir Íslendingar og þeir sem hafa tengsl við íslenskt samfélag þurfa að fara í skimun við komuna. Óbólusettir þurfa að sæta sóttkví og skimun við komuna til landsins en óbólusettum sem hingað koma fækkar stöðugt.

„Í síðasta mánuði greindust rúmlega 50 smitaðir við komuna til landsins. Síðan hafa nokkrir óbólusettir greinst í eftir fimm daga í sóttkví. Í síðasta mánuði greindust um 80 á fyrstu vikunni eftir komuna til landsins. Það er þá annað hvort fólk sem þurfti ekki að fara í sýnatöku við komuna eða fór í sýnatöku við komuna og fékk neikvætt en fékk svo einkenni og fór aftur. Samtals greindust því um 140 ferðamenn á fyrstu viku eftir heimkomu í síðasta mánuði.“

Misjafnar reglur á milli landa

Guðmund­ur Daði Rún­ars­son, fram­kvæmda­stjóri viðskipta og þró­un­ar hjá Isa­via, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið í gær að það sé ekki eins þægi­legt að koma til Íslands og sam­keppn­island­anna vegna aðgerða á landa­mær­un­um hér á landi.

Spurð hvort aðgerðir á landamærunum hér séu harðari en annars staðar segir Guðrún:

„Evrópa er sennilega almennt ekki eins ströng því þeir eru með svolítið öðru vísi kerfi því þeir taka meira við bólusetningavottorðum sem undanþágu en þeir eru sumir með landaskiptingar sem við erum ekki með. Þá eru þeir kannski með mjög harðar aðgerðir gegn einhverjum lista af rauðum löndum. Svo eru önnur lönd utan Evrópu, t.d. Bandaríkin, Bretland, Ástralía og Nýja Sjáland, sem eru með frekar miklar takmarkanir svo þetta er svolítið misjafnt. Að einhverju leyti erum við örugglega með frekar harðar aðgerðir.“

Aðspurð segir Guðrún þessar aðgerðir alltaf í sífelldri endurskoðun. „Hlutirnir breytast eftir því sem bólusett er meira í löndunum í kringum okkur. Hlutfall bólusettra ferðamanna sem koma hingað hefur aukist.“

Að lokum minnir Guðrún fólk áfram á það sem hefur verið hamrað á allan faraldurinn:

„Við hvetjum fólk til að sinna sínum persónulegu sóttvörnum og svo viljum við minna á mikilvægi sóttkvíar og smitgátar til þess að minnka útbreiðsluna á veirunni sem er enn til staðar.“

mbl.is