„Við erum augljóslega síðasta sort í þjóðfélaginu“

Djammið fær auka klukkustund samkvæmt nýrri reglugerð ráðherra.
Djammið fær auka klukkustund samkvæmt nýrri reglugerð ráðherra. mbl.is/Ari

Skemmtistaðaeigendur fagna afléttingu sóttvarnaaðgerða en hefðu viljað sjá frekari afléttingar. Þeir horfa björtum augum til komandi vikna. 

Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra fá skemmtistaðir og krár að hleypa nýjum viðskiptavinum inn til klukkan eitt um nótt en gestir skulu hafa yfirgefið staðinn klukkan tvö.

Fyrirsjáanleikinn góður

„Við fögnum þessum auka klukkutíma sem við fáum um helgar,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson, eigandi skemmtistaðarins Röntgen, í samtali við mbl.is.

„Auðvitað vorum við að vonast eftir frekari afléttingu til að geta verið með eðlilega starfsemi en það er jákvætt að fá loksins smá fyrirsjáanleika frá ríkisstjórninni. Óvissan að vita aldrei við hverju ætti að búast hefur verið krefjandi upp á til dæmis starfsmannahald.“

Almennur vilji fyrir hraðari afléttingum

Sindri Snær Jensson, einn eigenda nýja skemmtistaðarins Auto, tekur í sama streng en bætir við að hann hefði viljað sjá algjörar afléttingar. 

„Ég hefði viljað sjá hraðari afléttingar á öllu þannig að næturlífið gæti blómstrað á ný og ég held að það sé almennur vilji fyrir því í öllu samfélaginu. Það er vissulega gott að fá fyrirsjáanleika í eitt skipti, allavega af því að maður hefur verið að búast við afléttingu en svo hafa þær aldrei komið.“

Spurður hvort nýju takmarkanirnar hafi verið vonbrigði segir hann svo vera en segist taka öllum jákvæðum fréttum vel.

„Já, þetta eru smávægileg vonbrigði. Þetta er búið að vera það langvarandi að maður tekur öllum jákvæðum fréttum vel í þessum efnum en ég hefði þó viljað sjá algjörar afléttingar.“

Hænuskref og sorgardagur

Arnar Þór Gíslason, eigandi Irishman, Lebowski, Kalda, Kokteilbarsins, Dönsku krárinnar og Enska barsins, er ekki ánægður með fréttir dagsins.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Þetta eru í raun afléttingar sem við hefðum átt að fá fyrir mánuði síðan. Við vorum að vonast til stærra skrefs núna þar sem fengum ekkert síðast. Þó þetta sé skref í rétta átt þá er þetta algjört hænuskref. Við erum greinilega síðasta sort í þjóðfélaginu – það er augljóst.

Fyrst þau gefa sér svona langan tíma er greinilegt að þau ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta á næstunni. Ég vil ekki að fyrirsjáanleikinn sé fjórar vikur, það er bara allt of langur tími. Þetta er sorgardagur miðað við hvernig sérfræðingar eins og Kári hafa verið að tala.“

Vinnandi skólafólk gleymst

Arnar segir skjóta skökku við að fólk megi halda veislur í veislusölum og fara í heimahús þar sem ekkert eftirlit er, annað en tíðkast á skemmtistöðum og krám.

„Núna eru veisluhöld með mörg hundruð manns út í bæ án eftirlits á meðan hægt er að stjórna hópamyndun hjá okkur með eftirliti. Það má stíga trylltan stríðsdans til klukkan eitt en eftir það fer allt í bull. Þá má fara í heimahús þar sem enginn er að fylgjast með.“

Þá segir Arnar sóttvarnaaðgerðirnar bitna á vinnandi skólafólki sem hefur gleymst að hugsa til.

„Ég vorkenni skólafólkinu sem er að vinna hjá okkur því það fær ekki helgar- og kvöldvinnu sem það er að ráða sig í til að þurfa ekki að taka námslán og annað slíkt. Þetta kemur gríðarlega niður á ungu fólki. Svandís er greinilega ekki að hugsa til allra.“

Eru ekki hluti af menningunni

Spurður hvort hann muni láta í sér heyra segir Arnar það tilgangslaust þar sem ekki hafi verið hlustað á hann síðustu tvö ár.

„Það hefur aldrei verið hlustað á okkur. Við höfum talað um þetta í tvö ár. Þau eru búin að ákveða að við erum síðasta sort og ekki hluti af menningu.“

mbl.is