Bakvarðasveitin virkjuð á ný

Í ljósi fjölgunar á smitum vegna kórónuveirunnar hefur ákvörðun verið tekin um að virkja bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Er þetta talið nauðsynlegt til að koma til móts við mönnunarvanda sem getur skapast vegna veikinda eða tímabundinnar sóttkvíar heilbrigðisstarfsfólks ef að smit koma upp á heilbrigðisstofnunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.

Er fólki gefinn kostur á að skrá sig í tímavinnu, fullt starf eða hlutastarf, í allt að tvo mánuði og munu laun taka mið af kjarasamningi/stofnanasamningi viðkomandi stéttarfélags á viðkomandi stofnun.

Mikil þörf er nú á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum og er heilbrigðisstarfsfólk sem hefur tök á að veita hjálparhönd beðið um að skrá sig í bakvarðasveitina. 

Hópsmit ógnar starfsemi spítalans

Hjarta-, lungna og augnskurðdeild 12G verður lokuð næstu daga vegna smits sem kom upp á deildinni. Þá hefur ákvörðun verið tekin um að gera smitsjúkdómadeild A7 að farstóttareiningu þar sem einungis Covid-19 sjúklingum verður sinnt.

„Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu var sett á fót í upphafi COVID-19 faraldursins þegar ljóst var að mikilvægar heilbrigðisstofnanir gætu lent í mönnunarvanda vegna veikindafjarvista starfsfólks eða fjarvista vegna sóttkvíar. Þetta fyrirkomulag hefur reynst afar vel og skipt sköpum þegar heilbrigðisstofnanir hafa þurft að manna stöður með litlum sem engum fyrirvara. Í ljósi þess að smitum af völdum COVID hefur farið fjölgandi undanfarið og ljóst að mikilvæg heilbrigðisþjónusta getur raskast ef smit koma upp telja heilbrigðisyfirvöld nauðsynlegt að óska eftir heilbrigðisstarfsfólki á skrá í bakvarðarsveitinni sem er reiðubúið að hlaupa í skarðið ef á reynir,“ segir í tilkynningunni.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um bakvarðasveitina á skráningarforminu á vefsíðu Stjórnarráðsins. 

mbl.is