Andstaða hindraði úrbætur í Reynisfjöru

Banaslys varð í Reynisfjöru í gær þegar ung kona fór …
Banaslys varð í Reynisfjöru í gær þegar ung kona fór út með öldu og fannst síðar lát­in í sjón­um. mbl.is/Jónas Erlendsson

Andstaða hluta landeigenda í Reynisfjöru í Mýrdal ræður því að þar hefur ekki verið settur upp öryggisbúnaður sem áformað var. Sem kunnugt er varð banaslys á þessum stað í gær, þegar ung kínversk kona sem stóð í flæðarmáli lendi í brimskafli sem bar að land og skolaði með honum út. Þrjú önnur sem voru í sama hópi og konan voru hætt komin. 

„Mér finnst á engan hátt forsvaranlegt að andstaða hluta landeigenda þarna ráði því að ekki megi gera mikilvægar úrbætur í öryggisátt,“ segir Jónas Guðmundsson verkefnisstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Fyrir um tveimur árum voru komnar tillögur að um öryggisaðgerðir fjörunni. Vinnuhópur á vegum Þórdísar Kolbrúnar Reykjafjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra vann þær hugmyndir. Til stóð þá að setja upp viðvörunarfána og blikkljós, sem gefa myndi ljósmerki þegar mest brimar í fjörunni. Peningar til uppsetningar á búnaði höfðu verið tryggðir.

Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Landsbjörg.
Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Landsbjörg. mbl.is/Sigurður Bogi

„Landeigendur sögðu við þetta gæti orðið of íþyngjandi,“ segir Jónas. Bætir við að búið hefði verið að fá peninga, nokkrar milljónir króna, í gegnum ferðamálaráðherra til að setja öryggisbúnaðinn upp og allt verið klár, hefði andstaða og afsvör landeigenda ekki komið til. Málið sé því stop, hvað sem síðar verði.

„Að ætla að kenna okkur landeigendum um er mjög ódýrt,“ segir Guðni Einarsson í Þórisholti í Mýrdal. „Þetta er eins og að fá blauta tusku framan í andlitið. Ég minnist þess ekki að við höfum nokkru sinni hafnað því að öryggisbúnaður yrði settur upp í Reynisfjöru, enda þó við höfum gert athugasemdir við eitt og annað þegar hugsanlegar ráðstafanir voru kynntar á sínum tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert