Segir enga ástæðu til þess að kjósa aftur

Inga Sæland.
Inga Sæland. mbl.is/Kristinn Magnússon

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að miðað við framlögð gögn sé ekkert sem kalli á að kosið verði aftur til Alþingis í Norðvesturkjördæmi, hvað þá á öllu landinu.

Inga, sem á sæti í undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar, segir við mbl.is að henni virðist að allir sem komu að talningu atkvæða í kjördæminu og endurtalningunni sem á eftir kom, hafi unnið af heilindum og góðum hug.

„Við erum nú ekki búin að ljúka störfum en hingað til höfum við ekki fengið neitt, sem að mínu viti sýnir að ætla megi að það hafi verið átt við kjörgögnin þó þau væru ekki innsigluð nema að því leyti sem var,“ segir Inga.

Ekki tilefni til uppkosninga

Inga viðurkennir að pottur hafi víða verið brotinn í meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi. Þrátt fyrir það segir hún að það sé ekki sjálfkrafa ástæða til harkalegra inngripa inn í hið lýðræðislega ferli, eins og uppkosning myndi vera. Raunar segir hún að ekki sé ástæða til endurkosningar nema sterkur grunur væri um að svindl hafi mögulega átt sér stað.

„Umgjörðin og gallinn á henni, eins og kemur nú bara fram í löggjöfinni, hann á ekki að leiða til þess einn og sér að kosningar séu ógildaðar þegar við getum ekki sýnt fram á að þær hafi verið rangar, að það hafi ekki verið vilji kjósenda sem kom fram og að lýðræðið hafi raunverulega ekki fengið að ráða.“

Niðurstöður geti breyst við uppkosningu

Um uppkosningu segir Inga að fyrri niðurstöður geti mögulega litað væntanlegar niðurstöður. Kjósendur séu meðvitaðir um þá niðurstöðu sem upp úr kjörkössunum kom í september og því sé varhugavert að fara í uppkosningu.

„Hvernig eru kjósendur þá staddir? Fólk veit þá hvernig kosningarnar fóru og fólk veit að sumir jafnvel fóru ekki inn á þing og færu atkvæði kjósenda til slíkra þingmanna bara eitthvað annað, maður veit það ekki,“ segir Inga og bætir við:

„Til þess að ógilda kosningar þarf svo miklu meira til að koma. Við verðum til þess að geta leitt að því líkur að það hafi hreinlega verið svindlað í kosningunum. Það verður að ætla mega að minnsta kosti að það hafi verið gert.“

Málið verði til þess að betur verði að gáð í framtíðinni

Inga bendir blaðamanni ítrekað á að henni finnist fólk sem kom að talningu í Norðvesturkjördæmi hafa verið að vinna af heilindum. Að hennar sögn hafa allir sem að málinu koma sýnt mikinn samstarfsvilja.

„Allt þetta fólk, allir þeir sem hafa komið fyrir nefndina og verið einlægir og sagt okkur allt sem þeir vita, verið opnir og reynt að hjálpa okkur að vinna þetta mál af vandvirkni, þetta fólk á allt heiður skilið og þakkir,“ segir Inga og kveðst sannfærð um að málið allt verði til þess að betur verði hugað að atkvæðatalningu og meðferð kjörgagna í kosningum í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert