„Ég hef aldrei upplifað annað eins“

Halla segir að flestir séu samþykkir bólusetningarskyldunni en aðrir mjög …
Halla segir að flestir séu samþykkir bólusetningarskyldunni en aðrir mjög andvígir. Mótmæli í Vínarborg í vikunni. AFP

Mikil ólga hefur myndast innan austurrísks samfélags vegna ákvörðunar stjórnvalda þar í landi, sem kváðu í dag á um útgöngubann sem tekur gildi á mánudag. Þá á bólusetningarskylda að taka gildi 1. febrúar. 

Fólk má því ekki yfirgefa heimili sín, frá og með mánudegi, nema til að fara til vinnu, kaupa inn nauðsynjavörur og í heilsueflingarskyni.

Halla Mixa, sem býr í Vínarborg og stýrir félagi Íslendinga í Austurríki, segir að flestir séu samþykkir bólusetningarskyldunni en aðrir mjög andvígir.

Óvinir þjóðarinnar

„Ég hef aldrei upplifað annað eins. Það er ótrúlegur hiti í báðar áttir. Þeir sem eru bólusettir eru að skamma þá sem eru óbólusettir og eru ekkert að segja: „Hey, láttu bólusetja þig“, heldur frekar eitthvað eins og: „Ég óska þess að þú deyir ef þú færð kórónu[veiruna] og þú ættir að borga fyrir eigin spítalavist“ eða hreinlega: „Þú ættir ekki að mega fara á spítala ef þú ert ekki bólusettur“ og eitthvað svoleiðis,“ segir Halla.

„Ef þú ert ekki bólusettur í Austurríki ertu óvinur þjóðarinnar.“

Hún segir þau óbólusettu ekki heldur skafa undan líðan sinni:

„Þau segja eitthvað eins og: „Þið eruð svo vitlaus, þið eruð bara lömb. Þið gerið bara það sem yfirvaldið segir og hugsið ekki fyrir ykkur sjálf“.“

Þá hafi fólk komið með sögur af börnum, 14 ára og eldri, sem þó séu ekki orðin sjálfráða, sem hafi fengið bólusetningu í skólum án þess að foreldrum hafi verið gert viðvart og einnig sé ólga yfir því.

Kanslarinn Alexander Schallenberg, þriðji frá vinstri, tilkynnti aðgerðirnar ásamt fleiri …
Kanslarinn Alexander Schallenberg, þriðji frá vinstri, tilkynnti aðgerðirnar ásamt fleiri ráðamönnum í dag. AFP

Í tuttugu daga að hámarki

Um bólusetningarskylduna nefnir Halla að tvær forsendur þurfi að vera fyrir hendi.

„Annars vegar þarf að vera það alvarlegt ástand að það sé mikil hætta gagnvart almennri heilsu, og hins vegar þarf þingið að samþykkja það,“ segir Halla og bætir við að í austurrískum miðlum hafi lögfræðingar komið fram og sagt að í laganna skilningi þurfi staðan þann 1. febrúar ekki að vera sú sama og í dag til að reglugerðin taki gildi, heldur er nóg að hættan sé til staðar við lögfestinguna.

„Þó að hættan væri ekki til staðar þá væri þetta fyrirbyggjandi fyrir framtíðarhættu,“ segir hún.

Al­ex­and­er Schal­len­berg, kansl­ari Aust­ur­rík­is, sagði í yf­ir­lýs­ingu í dag að aðgerðirn­ar yrðu látn­ar gilda í tutt­ugu daga að há­marki og að bólu­setn­ing við Covid-19 verði lög­form­leg skylda frá 1. fe­brú­ar á næsta ári.

„Ég er búin að gera lítið annað en að horfa á fréttir og lesa mér til í dag,“ segir Halla og hlær en þingið kom saman í dag og segir hún að meirihluti þess hafi verið jákvæður gagnvart bólusetningarskyldu.

Austurrísk stúlka bólusett í Vín í vikunni.
Austurrísk stúlka bólusett í Vín í vikunni. AFP

Fólk í sveitum frekar óbólusett

Spurð hvernig almennir borgarar taki í það segir hún:

„Það eru mjög margir sem taka vel í þessa skyldu af því að meirihlutinn segir að þetta muni enda faraldurinn.“

Hún sé þó ekki það bjartsýn.

„Miðað við það að um 50 prósent þeirra sem eru á gjörgæslu með Covid eru bólusettir þá endar þetta ekki faraldurinn.“

Fólk í kringum Höllu í Vínarborg er nánast allt bólusett og 90% vinnustaðarins hennar bólusett. Sama sé ekki að segja um fólk í þorpum í efri héruðum landsins. Flest þeirra líti á veiruna sem litla ógn fyrir sig og auk þess viti hún um dæmi um tilfelli þar sem fólk vilji frekar bíða eftir bóluefni Novavax en líklegt þykir að bóluefnið, sem nú er í umsóknarferli hjá Lyfjastofnun Evrópu, verði samþykkt á næstu vikum.

Spurð hverju útgöngubannið breytir fyrir hana svarar hún:

„Ég er auðvitað einstæð móðir með lítil tvíburabörn og vinn að mestu leyti heima þannig ég er ekki mikið á meðal fólks. Á dögum sem ég fer í vinnuna fer ég auðvitað í próf en aðra daga er ég ekki mikið að spá í þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina