Móti nýtt tekjuöflunarkerfi vegna orkuskipta

Sigurður Ingi Jóhannsson stýrir nýju innviðaráðuneyti.
Sigurður Ingi Jóhannsson stýrir nýju innviðaráðuneyti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal verkefna nýrrar ríkisstjórnar er að móta og innleiða nýtt framtíðartekjuöflunarkerfi ríkissjóðs vegna umferðar og orkuskipta. Þetta mun koma samhliða öðrum aðgerðum sem miða að útfösun jarðefnaeldsneytis og að ná fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040. Þetta kemur fram í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var í dag.

Hlutur ríkissjóð í hverjum seldum olíulítra í dag er yfir 60% og er því um að ræða talsverðan tekjustofn fyrir ríkið.

Sigurður Ingi Jóhannsson mun áfram halda utan um samgöngumál, en það verður nú í nýju innviðaráðuneyti sem fær frekari verkefni en hann var með áður undir ráðuneyti samgangna og sveitarstjórna.

Áfram unnið að samgöngusáttmálanum

Frekari aðgerðir í tengslum við samgöngumál fela meðal annars í sér að áfram verði unnið að „uppbyggingu og fjármögnun hágæða almenningssamgangna og annarra samgöngumannvirkja“ í tengslum við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Er þar vísað til borgarlínuverkefnisins og uppbyggingar á nokkrum af stærri umferðarinnviðum höfuðborgarsvæðisins.

Þá er stefnt að því að halda áfram undirbúningi fyrir Sundabrautar með að markmiði að hún opni ekki síðar en árið 2031. Meðal markmiða er einnig að stuðla að því að almenningssamgöngur verði með endurnýjanlegum orkugjöfum á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar, en ekki er þó greint nánar í hverju það felst.

Ráðist verði í samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila

Ráðast á í skilgreindar „þjóðhagslega arðsamar flýtiframkvæmdir í samgöngum“ í samstarfi við einkaaðila, en Sigurður hefur áður lagt fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir milli ríkis og einkaaðila, en þessi verkefni hafa stundum verið nefnd PPP-verkefni. Meðal þeirra sem sett hafa verið fram áður eru:

  • Hring­veg­ur norðaust­an Sel­foss og brú á Ölfusá
  • Hring­veg­ur um Horna­fjarðarfljót
  • Ax­ar­veg­ur
  • Tvö­föld­un Hval­fjarðarganga
  • Hring­veg­ur um Mýr­dal og jarðgöng í Reyn­is­fjalli
  • Sunda­braut

Opinbert félag um jarðgangnagerð

Samkvæmt stjórnarsáttmálanum er stefnt að því að stofna opinbert félag um jarðgangnagerð, en móta á áætlun um uppbyggingu og fjármögnun jarðgangna og horfa til reynslu nágrannaþjóða.

Ekki er talað beinum orðum um Reykjavíkurflugvöll í sáttmálanum, en hins vegar segir að „loftbrú verður áfram mikilvægur þáttur almenningssamgangna“ og að „tryggður verður samrekstur millilandaflugvallar um land allt í einu kerfi“

mbl.is