Ólafur Teitur hættir sem aðstoðarmaður Þórdísar

Ólafur Teitur Guðnason.
Ólafur Teitur Guðnason. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ólafur Teitur Guðnason mun ekki halda áfram sem aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, sem nýlega tók við sem utanríkisráðherra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Frá þessu greinir Ólafur í færslu á Facebook. Þórdís hafði áður verið ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.

Í færslunni segir Ólafur að hann hafi hlakkað til að halda áfram, en að tilhlökkunin hafi einnig verið blönduð ákveðnum efasemdum um að hann væri í stakk búinn fyrir verkefnið. Vísar hann til þess að hafa gengist undir aðgerðir fyrir nokkru síðan og að hann finni að hann þurfi að passa vel upp á líkamann og heilsuna og færast ekki of mikið í fang.

Þegar ljóst varð hvaða ráðuneyti Þórdís fékk segir Ólafur Teitur að það hafi kallað á endurmat og niðurstaðan hafi verið sú að rétt væri að láta af starfi aðstoðarmanns ráðherra. Ólafur Teitur, sem áður var upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan í Straumsvík, segir ekki liggja fyrir hvað taki við.

Ólafur Teitur var fyrr á þessu ári í ítarlegu viðtali við SunnudagsMoggann þar sem hann ræddi um missi eiginkonu sinnar til 23 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert