Brennsla álitin betri kostur en urðun

Brennsla á úrgangi er álitin betri kostur við meðhöndlun úrgangs …
Brennsla á úrgangi er álitin betri kostur við meðhöndlun úrgangs en urðun. mbl.is/Árni Sæberg

Brennsla á úrgangi er álitin betri kostur við meðhöndlun úrgangs en urðun. Á þetta meðal annars við um losun gróðurhúsalofttegunda við meðhöndlun úrgangs. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps um forverkefni til undirbúnings við innleiðingu framtíðarlausnar til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi í stað urðunar.

Sorpbrennsla verði líklegast reist í Álfsnesi

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að útflutningur á brennanlegum úrgangi sé sem stendur fær og að stefnubreytingar Evrópusambandsins í þessum efni leiði af sér miklar líkur á að sá farvegur lokist á næstu árum.

Þá segir að nýlegar hátækniúrgangsbrennslur séu oft staðsettar nálægt íbúðabyggð og engar rannsóknir hafi komið fram sem sýni fram á skaðleg áhrif af rekstri þeirra á heilsu fólks eða lífríki.

Hátæknisorpbrennsla yrði reist á suðvesturhorni landsins þar sem meira en 80% af úrgangi falli til. Mat á staðsetningu hafi leitt í ljós að bygging hátæknibrennslunnar í Álfsnesi myndi fela í sér minnstan rekstrarkostnað þar sem kostnaður við flutning úrgangs til stöðvarinnar væri lægstur.

Hátæknibrennslan þurfi að geta afkastað allt að 13.000 tonnum á ári. Hún muni framleiða rafmagn og heitt vatn en rekstrarkostnaði yrði einkum mætt með hliðgjöldum.

Þá hefur stofnkostnaður verið metinn í grófum dráttum, sem og rekstrarkostnaður en áætlað er að það kosti á bilinu 20-30 milljarða króna að byggja brennsluna.

Ný sorpbrennsla verður líklegast reist í Álfsnesi.
Ný sorpbrennsla verður líklegast reist í Álfsnesi.

Hliðgjald fyrir brennslu yrði á bilinu 20-40 krónur

Fyrir liggi að hliðgjöld muni ráðast fyrst og fremst af því eignarformi sem verður fyrir valinu. Verði brennslan alfarið í opinberri eigu sé líklegt að hliðgjald þyrfti að vera 20 krónur á hvert kíló en verði hún alfarið í einkaeigu sé líklegt að hliðgjald yrði 40 krónur.

Í næsta áfanga verkefnisins þurfi svo að stofna félag sem fengi það hlutverk að halda áfram undirbúningsvinnu og þróa ítarlega viðskiptaáætlun um verkefnið.

Gefi niðurstaða viðskiptaáætlunar tilefni til liggi fyrir hverjir muni standa að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins, og rekstri vinnslunnar. Einnig muni liggja fyrir samningar við sveitarfélög um ráðstöfun brennanlegs úrgangs í farveg vinnslunnar.

Starfshópurinn sem vann að skýrslunni hefur unnið fyrir opnum tjöldum og haldið fimm opna fundi undir merkjum „Skör ofar“ á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og heldur sjötta og síðasta fund við útgáfu skýrslunnar. Fundurinn er aðgengilegur á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Að verkefninu standa: Kalka sorpeyðingarstöð sf., SORPA bs., Sorpstöð Suðurlands bs., Sorpurðun Vesturlands hf. og umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Helgi Þór Ingason er verkefnastjóri verkefnisins en meðal sérfræðinga sem komu að ritun skýrslunnar er Stefán Gíslason umhverfisfræðingur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert